Innlent

Í áttunda neðsta sæti yfir fjölda látinna í um­ferðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Um nítján prósent látinna í umferðinni eru erlendir ferðamenn þegar litið er til síðustu tíu ára.
Um nítján prósent látinna í umferðinni eru erlendir ferðamenn þegar litið er til síðustu tíu ára. Vísir/Vilhelm

Ísland skipar nú áttunda neðsta sætið á lista yfir banaslysa í umferðinni í Evrópu eftir að hafa skipað það tíunda neðsta síðustu fjögur árin.

Listinn er tekinn saman af CARE sem rekur samevrópskan umferðarslysagrunn, en við útreikninga er tekið mið af meðaltali á fimm ára tímabili. Fæst banaslys í umferðinni í Evrópu, miðað við höfðatölu, er í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, en flest í Rúmeníu.

Á vef Vegagerðarinnar segir frá því að árangur Íslands hafi raunar verið enn betri í gegnum tíðina en á árunum 2011 til 2015 hafi Ísland verið í þriðja til fimmta neðsta sæti yfir látna í umferðinni.

Vegagerðin

„Líklegt má teljast að aukinn fjöldi ferðamanna í umferðinni hafi töluvert að segja um þróunina síðustu ár en við útreikninga er miðað við fjölda íbúa í landinu en ekki tekið tillit til fjölda ferðamanna.

Þess má geta að um 19% látinna í umferðinni eru erlendir ferðamenn þegar litið er til síðustu tíu ára. Um 15% látinna í umferðinni eru erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hér á landi en um 66% íslenskir ríkisborgarar. Ferðamenn og erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru hér á landi eru því um þriðjungur þeirra sem hafa látist í umferðarslysum frá árinu 2012 til 2021,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×