Wall þótti gríðarmikið efni þegar hann kom inn í NBA-deildina með Washington Wizards árið 2010 en hann var valinn í úrvalslið nýliða á sinni fyrstu leiktíð og þá var hann kjörinn í Stjörnuleikinn fimm sinnum, árin 2014 til 2018.
Síðustu ár hafa aftur á móti reynst erfið. Hann hefur aðeins leikið 40 leiki á síðustu þremur árum vegna meiðsla. Hann opnaði sig nýverið um hversu erfið síðustu árin í kórónuveirufaraldrinum hafa reynst honum.
„Þetta er dimmasti dalur sem ég hef þurft að feta,“ sagði Wall. „Á einum tímapunkti íhugaði ég að enda líf mitt. Ég meina, það að rífa hásin, veikindi móður minnar, fráfall móður minnar, amma mín dó ári seinna, og allt var þetta í miðjum kórónuveirufaraldri, og á sama tíma fór ég með mömmu í lyfjameðferð, ég sat hjá móður minni þegar hún dró sinn síðasta andardrátt, verandi í sömu fötunum þrjá daga í röð liggjandi á sófanum við hlið hennar,“
Frances Pulley, móðir Wall, lést í desember 2019, 58 ára að aldri eftir baráttu við brjóstakrabbamein. Amma hans lést árið eftir og Wall tókst á við hásinarmeiðsli sín á sama tíma.
Hann segist hins vegar hafa getað hallað sér á sterkt stuðningsnet, þar á meðal liðsfélaga sína, barnsmóður sína og syni hans tvo.
„Ef ég lít til baka hugsa ég: Ef ég kemst í gegnum þetta, get ég yfirstigið allt í lífinu,“ segir hann.
And I mean ALWAYS!!!!!! Don't ever question it bro!! Proud of you @JohnWall https://t.co/KtDBmzvRgK
— LeBron James (@KingJames) August 30, 2022
Wall hefur þá hlotið stuðning víða af eftir að hann opnaði sig um málið. Ofurstjarnan LeBron James sagði á samfélagsmiðlinum Twitter: „Við styðjum við þig, alltaf. Og ég meina ALLTAF! Aldrei setja það í efa vinur! Stoltur af þér,“
Wall segist þá vera ánægður að geta spilað körfubolta á ný og hlakkar til komandi leiktíðar með Clippers liðinu.