Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði FCK og þá kom Ísak Bergmann Jóhannesson inn af bekknum er FCK vann nokkuð óvæntan 2-1 sigur á liðinu sem er ríkjandi meistari í Tyrklandi. Sigurvegari einvígisins fer í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en tapliðið í riðlakeppni Evrópudeildar.
Flot aften i Parken #fcklive #ucl #copenhagen
— F.C. København (@FCKobenhavn) August 16, 2022
Getty Images pic.twitter.com/U4O3kgOBEI
Það var því gríðarlega mikið undir og hægt að fyrirgefa leikmönnum beggja liða að vera eilítið stressaðir í upphafi en ef til vill hefur Jens Stryger Larsen verið aðeins meira á nálum en næsti maður. Þó svo að hann hafi látið annað í ljós í viðtali eftir leik.
Larsen, sem er þaulreyndur landsliðsmaður, hóf nefnilega ferilinn í Bröndby og það verður seint sagt að það sé mikill kærleikur á milli Bröndby og FCK.
Hægri bakvörðurinn fékk það óþvegið nær allan leikinn frá stuðningsfólki heimaliðsins. Ásamt því að það var baulað í hvert skipti sem hann snerti boltann þá glumdi ófagur söngur einnig reglulega. Sá var svo hljóðandi:
„Þú ert og verður alltaf Bröndby svín.“
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég spila hér á Parken og hef heyrt eitthvað á þessa átt. Það er eins og það er,“ sagði Larsen og glotti við tönn eftir leik.

„Þetta voru ekki úrslitin sem við vildum ná í en við erum enn inn í einvíginu. Við spiluðum ágætlega á köflum en gerðum nokkur heimskuleg mistök,“ sagði hann einnig. Larsen var ekki eini Daninn í byrjunarliði Trabzonspor en framherjinn Andreas Cornelius hóf leikinn sem fremsti maður. Hann hóf ferilinn með FCK og fékk því öllu blíðari móttökur.
Síðari leikur liðanna fer fram á miðvikudaginn eftir viku og þá kemur í ljós hvort liðið fer í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og hvort fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.