„Skemmtilegt að heyra Ólöfu Sigríði (Kristinsdóttur) að henni finnst þær vera að færa það inn í leikina sem þær gera á æfingasvæðinu. Maður sér alveg hvað þær eru að reyna að gera, þær spila skemmtilegan fótbolta, það er gaman að horfa á þær spila og maður sér að þær hafa gaman þegar þær eru að spila,“ sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna um lið Þróttar sem situr nú í 3. sæti Bestu deildarinnar.
Markið og umfjöllun Bestu markanna má sjá í spilaranum hér að neðan. Eftir innkast á eigin vallarhelmingi átti Þróttur alls tíu sendingar sín á milli áður en Katla Tryggvadóttir renndi boltanum í gegnum vörn ÍBV á Danielle Marcano sem fór auðveldlega framhjá Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving í marki ÍBV og renndi boltanum í netið.
Þróttur er sem stendur í 3. sæti með 25 stig, þremur minna en Breiðablik sem situr í 2. sæti, þegar fimm umferðir eru eftir af mótinu.