Þá verður rætt við lögreglufulltrúa í beinni útsendingu um umferðina eftir Verslunarmannahelgina sem virðist hafa farið vel fram að mestu.
Við hittum yfirlækni á Selfossi sem tók ásamt eiginkonu sinni að sér óvænt verkefni í gær, þegar bráðveika konu þurfti að flytja til Reykjavíkur og tveir ungir synir hennar höfðu ekki í nein hús að venda. Læknirinn tók til sinna ráða í samvinnu við barnavendaryfirvöld.
Það sem af er ári ganga rúmlega 70 prósent nýkeyptra bíla fyrir rafmagni að einhverjum hluta til. Bílaumboð eru viss um að niðurfelling virðisaukaskatts á þeim sé helsta ástæðan og segja að stjórnvöld verði að framlengja hana til að ná markmiðum sínum.
Þá fjöllum við um skógarelda í Kaliforníu og flóð sem valdið hafa eyðileggingu í Kentucky ríki ásamt því að hitta Íslending sem á líklega lengsta skegg á landinu. Við komumst að því hvað skeggið er langt í kvöldfréttatímanum en eigandi skeggsins hefur verið boðið mörghundruð þúsund krónur fyrir það.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu klukkan 18:30.