Undanfarinn sólarhring hafa meira en fimm hundruð skjálftar mælst á mælum Veðurstofunnar við Fagradalsfjall og þar af hafa átján verið stærri en 3,0 að stærð sem telst ansi kröftugt.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, sagði í viðtali við Vísi að atburðurinn myndi vara í nokkra daga og að sérfræðingar myndu fylgjast náið með virkninni enda gæti jarðskjálftahrinan verið til marks um yfirvofandi eldgos.
Þá sagði Einar að gert sé ráð fyrir því að kvika geti verið á sama dýpi og þar sem skjálftarnir eru að mælast. Jafnframt sagði hann að þessi jarðskjálftahrina sé ívið kröftugri en hrinan sem var um áramótin.
Óvissustig og gulur flugveðurkóði
Ríkislögreglustjóri lýsti, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesskaga. Í óvissustigi almannavarna eykst eftirlit með tiltekinni atburðarás .
Björn Oddsson, fagstjóri hjá Almannavörnum, sagði að búast mætti við jarðskjálftahrinum, líkt og þeim sem nú stendur yfir, næstu áratugi og telur hann að það sé ekki endilega merki um eldgos í hvert skipti.
Veðurstofan hefur einnig sett flugveðurkóða á gult viðbúnaðarstig sem hefur ekki verið gert síðan eldgosinu í Fagradalsfjalli lauk og talið var öruggt að færa kóðann upp á grænt stig að nýju.