Í október á síðasta ári var skrifað undir samning um kaup Ardian á Mílu en sá samningur var háður samþykki Samkeppniseftirlitsins sem hefur haft kaup fjárfestingarsjóðsins til rannsóknar frá 8. febrúar.
Nú í síðustu viku greindi Ardian frá því að ekkert yrði af viðskiptunum þar sem skilyrði Samkeppniseftirlitsins væru of íþyngjandi. Mat fyrirtækisins væri að forsendur kaupsamnings væru brostnar og því þyrfti að lækka kaupverðið.
Ardian ósammála Samkeppniseftirlitinu að öllu leyti
Í dag birti Samkeppniseftirlitið tilkynningu þar sem er greint frá andmælaskjali með ítarlegu frummati um samkeppnisleg áhrif sölunnar en þar er vakin athygli á þeim hættum sem geta fylgt sölunni. Í tilkynningunni má einnig sjá viðbrögð Ardian og Símans við frummatinu.
Ardian áréttar að það sé í meginatriðum ósammála öllum helstu efnisþáttum í frummati Samkeppniseftirlitsins. Þá mótmælir sjóðurinn þeim forsendum sem fram koma í frummatinu sem lúta að því að samrunaskrá hafi ekki útlistað nein sjónarmið um hagræðingu vegna samrunans.
Jafnframt segir Ardian að samrunaskráin og önnur gögn sem lögð hafa verið fyrir Samkeppniseftirlitið sýni fram á með „sannanlegum hætti að samruninn leiði til hagræðingar og hagkvæmni.“
Hætta á að viðskiptavinir Símans verði af verðlækkunum
Í frummati Samkeppniseftirlitsins kemur fram að fyrirfram mætti gera ráð fyrir að slit á eignatengslum milli Símans og Mílu séu jákvæð í samkeppnislegu tilliti.
Hins vegar er bent á að samrunaaðilar horfi fram hjá því að eignatengsl Símans og Mílu hafi frá árinu 2013 verið bundin ítarlegum skilyrðum sem ætlað sé að vinna gegn skaðlegum áhrifum eignatengslanna.
Þá kemur fram í andmælaskjalinu að samningurinn verði ekki skilinn öðruvísi en svo að Síminn verði til langs tíma bundinn í viðskipti við Mílu og keppinautar Mílu yrðu að verulegu leyti útilokaðir frá viðskiptum við stærsta veitanda fjarskiptaþjónustu á landinu.
Jafnframt telur eftirlitið að ákvæði samningsins um bindingu heildsöluverðs við vísitölu neysluverðs feli í sér „hættu á að Síminn, og þar með viðskiptavinir hans, verði af verðlækkunum vegna áframhaldandi tækniþróunar og samkeppnislegs aðhalds.“
Keppinautum í innviðastarfsemi fækki
Einnig eru færð rök fyrir því í frummatinu að samruninn geti haft í för með sér aukna samhæfingu keppinauta við rekstur gagnaflutningskerfa og auki þannig hvata til samstilltra aðgerða. Það geti leitt til myndun innviðabandalaga sem geti „í sinni verstu mynd haft þau áhrif að öll innviðasamkeppni leggist af.“
Enn fremur eru leiddar að því líkur að markaðsráðandi staða Mílu styrkist á markaði fyrir sértæka gagnaflutningaþjónustu og að Míla muni hafa tækifæri til að takmarka aðgengi viðskiptavina og keppinauta á lægri sölustigum að mikilvægum aðföngum og viðskiptavinum.
Í andmælaskjalinu segir að óbreyttu sé hætta á að keppinautum í innviðastarfsemi og heildsölu fækki verulega. Einnig liggi fyrir að samkeppni á þessu sviði hafi skapað neytendum og fyrirtækjum aðgang að öflugri innviðum og legið til grundvallar því að ný fjarskiptafyrirtæki hafa komist inn á markaðinn.