Toast tilkynnti um kaupin fyrr í dag en en þar kemur fram að Sling bætist við lausnir Toast á sviði launavinnslu og teymisstjórnunar (e. team management).
„Með því að bæta Sling við Toast-vettvanginn getum við búið upp á viðameiri lausn á teymisstjórnunarlausnir fyrir veitingastaði. Viðskiptavinir okkar munu njóta góðs af því að geta auðveldað samskipti innan teyma, stýrt þeim í gegnum einn miðlægan vettvang og haft betri stjórn á launakostnaði,“ er haft eftir Aman Narang, rekstrarstjóra og meðstofnanda Toast.
„Þetta er stór áfangi fyrir starfsmenn Sling sem hafa hjálpað okkur að þróa trausta lausn á síðustu sjö árum. Við erum spennt fyrir því að halda áfram að þróa lausnir fyrir starfsfólk veitingastaða undir hatti Toast,“ segir Helgi Hermannsson, forstjóri og stofnandi Sling.
Helgi sagði í viðtali við Vísi árið 2020 að yfir nítján þúsund fyrirtæki í 132 löndum notuðu Sling daglega en hugbúnaðurinn var gefinn út árið 2015.
Helgi sagði hugmyndina strax í upphafi hafa verið þá að horfa til Bandaríkjanna og smíða lausn sem hentaði þeim markaði.
„Það var töluverð áskorun að flytja til Bandaríkjanna með aðeins PowerPoint skjal og hugmynd um hvað Sling ætti að verða, við vorum ekki byrjuð að smíða vöruna. Að finna fyrstu viðskiptavini Sling og notendur var mikið mál og erfitt. Að ganga um götur NY borgar með PowerPoint kynningu og reyna að ná athygli fólks er ekkert grín,“ sagði hann.
Það sem skipti sköpum fyrir reksturinn var stór samningur sem fyrirtækið gerði í Bandaríkjunum árið 2016 og skilaði þeim 330 milljóna króna eingreiðslu.
Samkvæmt ársreikningi dótturfélagsins á Íslandi námu tekjur þess 330 milljónum króna í fyrra og 20 milljóna króna halli var á rekstrinum. Ársreikningurinn nær þó ekki utan um umsvif móðurfélagsins sem er skráð í Bandaríkjunum.
Helgi er langstærsti hluthafinn í Sling en vísissjóður á vegum Crowberry Capital er einnig í hluthafahópnum.
Á meðal innlendra ráðgjafa í viðskiptunum voru lögmannsstofan LEX, sem vann fyrir Toast, og endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið PWC.