Karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu eftir að hann hóf skothríð fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks á öðrum tímanum að staðartíma í nótt. Tveir eru látnir og tíu særðir. Gleðigöngu sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar að ráðleggingum lögreglu.
Í Facebook-færslu í morgun sagðist íslenska sendiráðið í Osló fylgjast vel með framvindu mála án þess þó að vísa sérstaklega til skotárásarinnar. Hvatti það Íslendinga í borginni til að láta aðstandendur sína vita af sér eða hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónust utanríkisráðuneytisins.
Þá hvatti sendiráðið Íslendinga til þess að virða lokanir og tilmæli yfirvalda í Osló og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum. Benti það á að mikið álag væri á símkerfi borgarinnar og því væri best að nota samfélagsmiðla til þess að láta vita af sér.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði hug sinn hjá fórnarlömbum árásarinnar og fólki í Osló eftir tíðindi næturinnar. Sendi hann innilegar samúðarkveðjur til Raymonds Johansen, borgarstjóra Oslóar, í tísti í morgun.
„Stöndum saman gegn hatri,“ tísti borgarstjóri.
Skelfilegar fréttir frá Osló. Tveir látnir og fjöldi slasaðra i grimmdarlegri skotàràs kvöldið fyrir Oslo Pride. Hugurinn er hjá fórnarlömbum og öllum í Osló. Innilegar samúðarkveðjur til borgarbúa allra og @RaymondJohansen borgarstjóra frá Reykjavík. Stöndum saman gegn hatri.
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) June 25, 2022
Í sama streng tók Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata.
„Hugur minn er í dag hjá íbúum Osló og hinsegin samfélaginu þar. Stöndum saman gegn bakslaginu. Hatrið mun ekki sigra,“ tísti hún.
Hugur minn er í dag hjá íbúum Osló og hinsegin samfélaginu þar. Stöndum saman gegn bakslaginu. Hatrið mun ekki sigra. My heart goes out to the people of Oslo and the queer community. We must stand together against this backlash. Hatred will not win. #Oslo #OsloPride
— Alexandra Briem (@OfurAlex) June 25, 2022