„Við erum mjög jákvæð, við höfum verið mjög bjartsýn og horfum auðvitað fram á það að efla starfið, opna félagið, það má breyta ýmsu til batnaðar,“ segir Þráinn Farestveit varaformaður samtakanna í samtali við fréttastofu.
„Meirihluti þeirra sem sátu fundinn kýs þá stjórn sem hefur verið starfandi síðustu tvö ár og styður hana í þeim málefnum og gildum sem við leggjum fram.“
Þráinn segir núverandi stjórn vilja opna félagið meira.
„Við viljum fá fólk úr öllum stéttum, fólk sem hefur starfað faglega að málefnum þessara skjólstæðinga frá öllum stöðum því að markmið okkar auðvitað er að samþætta þetta betur, það er að segja tengingin milli ríkis og borgar og sveitarfélaganna, eiga náið samtal um hvernig þessi vettvangur er, með því teljum við okkur geta unnið betur.“
Þráinn leggur áherslu á að vilji stjórnarinnar sé að hinn almenni borgari geti nálgast samtökin betur og án skilyrða „ef það er fólk sem hefur áhuga á að vinna með okkur þá viljum við þannig fólk.“
Fólk horfir til þess að við tókum rétta ákvörðun
Þráinn segir sjálfsaflafé félagsins aldrei hafa verið meira og verði það til þess að opið verði á göngudeild og Vík í sumar en félagið hafi ekki getað kostað það áður.
„Við teljum að það sýni sig að þrátt fyrir þessa ágjöf og umræðu og það hvernig hlutirnir voru svona svolítið erfiðir, þá studdi fólkið okkur samt og líklega betur þar sem ákvörðun núverandi framkvæmdastjórnar var sú að við myndum draga okkur út úr spilakassaágóða og lögðum það til hliðar. Urðum þar af auðvitað tugum milljóna í tekjur sem skilar sér svo aftur í því að fólk horfir til þess að við tókum rétta ákvörðun.“