„Ég er búin að reyna þetta fjórum sinnum. Þetta er svolítið flókið,“ sagði Lára í samtali við fréttastofu. „Ég er alla vega mjög stressuð fyrir þessu.“

Aðrir hafa sömu sögu að segja af prófinu, einn sem fréttastofa ræddi við féll á spurningu um umferðarstýringu lögreglumanns á mótorhjóli, annar kvaðst falla á „trikkspurningunum“ og sú þriðja sagði ljóst að verið væri að reyna að rugla fólk í ríminu með spurningunum.
Ein spænskumælandi leikkona sem fréttastofa ræddi við, sem hafði fallið tvisvar á prófinu, sagðist vera búin að þróa með sér eins konar ástríðu fyrir verkefninu. Hún væri ákveðin í að ná þessu á endanum.
Sér maður betur með kveikt ljós í bílnum? Er réttlætanlegt að flauta á barn að leik? Er hlutverk Samgöngustofu að annast merkingu á vegum landsins? Þetta er ekki á allra vitorði, en þarf að vera á vitorði þeirra sem hyggjast aka bíl á Íslandi.
40-50% fall á prófinu
Rætt var við Pétur Blöndal pistlahöfund, sem hefur fjallað um bóklega ökuprófið í pistlum á Innherja. Pétur segist ekki hafa fallið sjálfur á prófinu heldur hafi hann fyrst orðið áhugasamur um fyrirkomulagið þegar börnin hans hófu ökunám. Þau hafi raunar ekki verið sérstaklega stressuð fyrir því að falla í prófinu, enda væri það bara hluti af ferlinu. Að falla nokkrum sinnum á prófinu.

„Til þess að fá þetta nú staðreynt hafði ég samband við Samgöngustofu og komst að því að það er 40-50% að falla á þessu prófi. Það voru 4.400 sem tóku þetta próf 2020 og miðað við það eru 2.000-2.200 manns sem falla á prófinu. Þannig að ég fór að velta því fyrir mér, hvað er það sem krakkarnir eru að flaska á? Ég skoðaði prófin og sá strax að þetta væri töluverður útúrsnúningur oft,“ segir Pétur.
Mörg skrautleg dæmi eru um spurningar á prófinu eru rakin í innslaginu hér að ofan. Samgöngustofa kveðst vera með prófin til endurskoðunar og Pétur Blöndal segir engan vafa á að hinu opinbera beri að gera breytingar á því til hins betra; nefnilega, að það þjóni markmiði sínu að tryggja ökuleikni nemenda, frekar en að klekkja á þeim.