Árásarmennirnir réðust inn í St. Francis kirkjuna í Ondo-héraði í dag þegar safnaðarmeðlimir komu þar saman í hvítasunnumessu. Meðal þeirra látnu eru börn að sögnOgunmolasuyi Oluwole, þingmanns. Þá numu árásarmennirnir prestinn á brott.
Yfirvöld hafa enn ekki gefið það út hve margir féllu í árásinni en Adelegbe Timileyin, þingmaður Owo-svæðisins í neðri deild nígerska þingsins, sagði í samtali við AP að minnst fimmtíu hafi látist. Aðrir hafa sagt mannfallið vera enn meira.
Myndbönd sem hafa birst á samfélagsmiðlum frá vettvangnum sýna safnaðarmeðlimi liggja í blóði sínu á kirkjugólfinu og aðra sem lifðu árásina af gráta sárum.

Muhammadu Buhari forseti Nígeríu sagði í yfirlýsingu í dag að aðeins „óvinir frá helvíti“ hefðu getað ímyndað sér og framkvæmd árás sem þessa.
„Sama hvað þá mun þetta land aldrei bugast undan illu og vondu fólki, og myrkrið mun aldrei bera ljósið ofurliði. Nígería mun á endanum sigra,“ sagði Buhari, sem hefur heitið því að vinna bug á þeirri öryggisógn sem ríkir innan landamæra Nígeríu.
Enn er óljóst hverjir árásarmennirnir voru og hver ástæða árásarinnar var. Mikil óreiða hefur ríkt í Nígeríu undanfarna áratugi og árásir sem þessar tíðar. Ondo hefur þó ávalt verið talið eitt öruggastsa hérað landsins. Undanfarin misseri hafa þó ofbeldisfullar deilur milli hirðingja og bænda tröllriðið héraðinu.