Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni en alls bárust áskriftir fyrir rúmlega 32 milljarða króna en boðnir voru 827,3 milljónir af áður útgefnum hlutum.
Í sölubók A var rúmlega þreföld eftirspurn og fimmföld í tilboðsbók B. Alls var seldur 29,5 prósenta hlutur í félaginu fyrir 7,9 milljarðar króna.
Innherji greindi frá því á dögunum að almennir fjárfestar hafi fengið úthlutað bréfum í félaginu upp á 678 þúsund krónur. Miðað við það sölugengi er allt hlutafé Ölgerðarinnar, sem er stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, nú metið á meira en 28 milljarða króna.
Farið fram úr björtustu vonum
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu mikið af ungu fólki keypti hlut í fyrirtækinu.
„Við erum í skýjunum með þessar frábæru móttökur sem færa stóran hluta fyrirtækisins í eigu þjóðarinnar. Við vonuðumst vissulega eftir góðum viðbrögðum, en þau fóru fram úr okkar björtustu vonum og sýna að viðskiptavinir og fjárfestar hafa trú á fyrirtækinu, vörum okkar, þjónustu og framtíðarsýn,“ er haft eftir Andra í tilkynningu.
Heildartekjur Ölgerðarinnar á síðasta fjárhagsári námu tæplega 32 milljörðum króna og EBITDA hagnaður félagsins var nærri 3,3 milljarðar króna.
Gjald- og eindagi áskrifta er 3. júní og er ráðgert er að viðskipti með hlutabréf Ölgerðarinnar hefjist í Kauphöllinni fimmtudaginn 9. júní. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hafði umsjón með útboðinu.