Salan á skipunum tveimur var gerð heimild í lok 2019 og voru þau sett á sölu um haustið 2021. Í febrúar á þessu ári greindi mbl.is frá því að tvö tilboð hafi verið gerð í skipin og í apríl var tilkynnt að tilboð í skipin hafi verið samþykkt. Ekki var tilgreint hvort annað af upphaflegu tilboðunum hafi verið það samþykkta. Annað tilboðið hljóðaði upp á 125 milljónir króna en hitt upp á átján milljónir.
Morgunblaðið greindi frá því að tilboðið væri bindandi og að drög að kaupsamningi væru komin langt á veg.
Í samtali við fréttastofu segir Helena Rós Sigmarsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkiskaupum, að nú hafi verið fallið frá sölunni þar sem kaupandi gat ekki staðið við sitt.
„Eins og staðan er núna er samtal í gangi við tvo aðila sem hafa sýnt skipunum áhuga og þeir hafa viku til að skila inn þeim tilboðum. Ef það gengur ekki verður staðan tekin aftur í samráði við ráðuneytið og gæsluna,“ segir Helena.
Varðskipið Týr var á sínum tíma dýrasta og fullkomnasta skip Íslendinga en það kom fyrst til Reykjavíkur árið 1975. Ægir er enn eldra en það var smíðað í Danmörku árið 1968 og kom til landsins sama ár.