Þá segir hún að þessar fordæmalausu brottvísanir stríði gegn kristnum gildum. Hún bætir því við að auðvitað vilji kirkjan fara eftir lögum og reglum, en að þær reglur séu túlkaðar á mannúðlegan hátt, en ekki eins strangt og hægt er.
Fyrirhugaðar brottvísanir hafa reynst umdeildar og hafa stjórnvöld meðal annars verið gagnrýnd fyrir að ætla að senda í burtu fólk sem hafi verið hér á landi í tvö ár og ráðið sig í vinnu.
Agnes segir í samtali við Fréttablaðið að það sé afleitt að til standi að vísa fólki burt sem hafi komið sér fyrir á Íslandi og skotið rótum. Það virðist matskennt hvort fólki sé vísað úr landi eða ekki. Biskup bætir við að hælisleitendur hafi leitað í miklum mæli til kirkjunnar, ekki síst alþjóðlegs safnaðar í Breiðholti.
Dómsmálaráðherra hefur ítrekað sagt aðspurður um málið að verið sé að fara eftir lögum í málinu. Hin fyrirhugaða hrina brottvísana skýrist af kórónuveirufaraldrinum og hafa sumir sem senda á úr landi nú dvalið hér í um þrjú ár.