Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA/Þór 30-26 | Valskonur einum sigri frá úrslitum

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/Hulda Margrét

Valskonur unnu góðan fjögurra marka sigur er liðið tók á móti Íslandsmeisturum KA/Þórs í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld, 30-26. Valskonur leiða nú einvígið 2-1 og þurfa því aðeins einn sigur í viðbót til að fara í úrslit.

KA/Þór mætti til leiks með sjálfstraustið í botni eftir sigur á Val í síðasta leik fyrir norðan. Það gekk allt upp hjá gestunum á báðum endum vallarins. Eftir tæplega sjö mínútna leik voru gestirnir sex mörkum yfir 1-7. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók leikhlé skömmu áður fimm mörkum undir.

Fyrri hálfleikur Vals var afleiddur í síðasta leik og stefndi í það sama en heimakonur fundu betri takt um miðjan fyrri hálfleik. Andrea Gunnlaugsdóttir, markmaður Vals, kom inn á og fór að verja sem kom Val aftur inn í leikinn.

Það átti sér stað áhugavert atvik þegar Jónas Elíasson, dómari leiksins, stoppaði leikinn og tók mark af KA/Þór þar sem stígið var á línu. Frá mér séð var þetta mjög augljóst og hélt ég að ritaraborðið væri að gera mistök þar sem markið fékk að standa lengi en þegar KA/Þór hafði gert tólf mörk var áttunda mark liðsins réttilega dæmt af.

Þrátt fyrir að vera marki undir í hálfleik var augnablikið með heimakonum sem gerðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og var staðan 13-14 í hálfleik.

Lovísa Thompson, leikmaður Vals, náði sér ekki á strik í síðasta leik þar sem hún skoraði aðeins eitt mark og var það sama upp á teningum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik fann hún betri takt.

Líkt og í fyrri hálfleik þá byrjaði Valur seinni hálfleik á fjórum tæknifeilum á fjórum mínútum sem KA/Þór refsaði fyrir með hraðaupphlaupum og komust gestirnir fjórum mörkum yfir 14-18.

Eftir brösótta byrjun komst Valur aftur inn í leikinn þegar heimakonur keyrðu upp hraðann og hættu að tapa klaufalegum boltum sem endaði með að Valur jafnaði leikinn í fyrsta skiptið þegar sextán mínútur voru til leiksloka.

Það gekk allt upp hjá Val á síðasta korterinu. Heimakonur klikkuðu varla á færi á meðan Andrea Gunnlaugsdóttir, markmaður Vals, varði vel. KA/Þór reyndi að fara í sjö á sex en Valur leysti það vel.

Valur endaði á að vinna fjögurra marka sigur 30-26. 

Af hverju vann Valur?

Valur sýndi mikinn karakter í leiknum. Þrátt fyrir að byrja bæði fyrri og seinni hálfleik kom Valur alltaf til baka og keyrði yfir KA/Þór um miðjan seinni hálfleik. 

Hverjar stóðu upp úr?

Andrea Gunnlaugsdóttir, markmaður Vals, byrjaði á bekknum en kom inn á og fór á kostum. Andrea varði 18 skot og endaði með 51.4 prósent markvörslu.

Hildigunnar Einarsdóttir gerði vel í að búa sér til svæði á línunni og skoraði hún sex mörk úr jafn mörgum skotum.

Hvað gekk illa?

Valur byrjaði bæði fyrri og seinni hálfleik afar illa. Gestirnir komust sex mörkum yfir snemma í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik byrjaði Valur að tapa haug af boltum sem endaði með að KA/Þór komst fjórum mörkum yfir.

KA/Þór getur sjálfum sér um kennt hvernig leikurinn fór. Gestirnir áttu engin svör við hröðum leik Vals um miðjan seinni hálfleik sem varð til þess að Valur vann leikinn.

Markvarsla KA/Þórs var ekki til staðar og varði Sunna Guðrún Pétursdóttir, markmaður KA/Þórs, 3 skot og endaði með 9.2 prósent markvörslu.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast næst í KA heimilinu á laugardaginn klukkan 15:00.

Andri Snær: Mér fannst línan hjá dómurunum óskýr 

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var ánægður með sigurinnVísir/Hulda Margrét

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, var afar svekktur eftir leik.

„Ég er hundsvekktur, við ætluðum að vinna og við lögðum mikið í leikinn en fórum afar illa með ansi mörg dauðafæri,“ sagði Andri svekktur með öll færin sem hans konur klikkuðu á. 

KA/Þór komst sex mörkum yfir snemma leiks og var Andri ánægður með hvernig hans konur byrjuðu leikinn.

„Við vorum með tök á leiknum. Við fengum töluvert fleiri brottvísanir en Valur og það var erfitt að spila í undirtölu.“

„Mér fannst línan óskýr í brottvísunum en ætla ekki að vera væla yfir því þessi leikur er búinn og við ætlum að vinna næsta leik á okkar heimavelli.“

Andri var nokkuð brattur eftir leik og var ekkert að pirra sig á því að það var tekið mark af KA/Þór löngu seinna eftir að markið hafði fengið að standa.

„Við skoðum bara okkar mál, við lærum af þessari frammistöðu og munum líta í eigin barm þar sem þetta einvígi er langt frá því að vera búið,“ sagði Andri Snær að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira