Þetta tilkynnti Katrín á framlagaráðstefnu til stuðnings Úkraínu sem fór fram í Varsjá í Póllandi. Ísland hefur þegar lagt til 575 milljónir króna en Katrín tilkynnti í dag um 425 milljónir til viðbótar.
Af milljarðinum nema framlög til mannúðarmála 510 milljónum króna, 230 milljónum verður ráðstafað síðar til mannúðar- og efnahagsstuðnings við Úkraínu og 260 milljónir fara í sjóð á vegum Alþjóðabankans sem styðja mun efnahag Úkraínu.
„Með þessu nær tvöföldum við núverandi stuðning okkar við Úkraínu, þar sem megináherslan er áfram á mannúðarmál, stuðning við fólk á flótta og viðkvæma hópa en við leggjum einnig fram efnahagsaðstoð. Við Íslendingar viljum leggja okkar af mörkum á þeim sviðum þar við getum gert gagn,“ er haft eftir Katrínu í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Fundaði með forsætisráðherrum Úkraínu og Pólland og von der Leyen
Þar kemur jafnframt fram að í ávarpi, sem Katrín flutti á fundinum, hafi hún ítrekað fordæmingu íslenskra stjórnvalda á árásarstríði Rússlands. Innrásin væri gróft brot á alþjóðalögum og afleiðingar hennar væru skelfilegar fyrir óbreytta borgara. Sérstaklega þyrfti að huga að áhrifum stríðsins á konur og börn, ekki síst að því er varðar kynbundið ofbeldi og mansal.

Katrín nýtti ferðina til að funda með Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands þar sem þau ræddu stríðið í Úkraínu en einnig tvíhliða málefni eins og fyrirhugaða opnun sendiráðs Íslands í Varsjá síðar á þessu ári. Þá fundaði hún jafnframt með Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu.
Katrín fundaði einnig með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB þar sem Úkraína var sömuleiðis efst á baugi og ræddu þær meðal annars þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi. Loks hitti Katrín Rafal Trzaskowski borgarstjóra Varsjár og heimsótti móttökustöð flóttamannastofnunar Noregs sem rekin er í samvinnu við borgaryfirvöld.