Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en borgin vill byrja að byggja sem fyrst í Nýja Skerjafirði og er þessa dagana í óða önn að úthluta þar byggingarlóðum. Svæðið er hins vegar ennþá lokað innan flugvallargirðingar.

Deilt er um hvort fyrirhugað íbúðahverfi gangi í berhögg við samkomulag borgarstjóra og ráðherra um að á meðan flugvallarstæði sé kannað í Hvassahrauni skuli rekstraröryggi tryggt á Reykjavíkurflugvelli.
Aðilar vitna til skýrslu hollenskra sérfræðinga um að hætta vegna sviptivinda frá nýju hverfi svo nálægt flugbrautum við ákveðnar aðstæður kalli á mildunarráðstafanir.
„Þær miða allar að því að draga úr hættu í flugi, sem þýðir það að flug verður bannað á þessum dögum sem þessar aðstæður verða þannig. Þannig eru mildunarráðstafanir til að draga úr hættu,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla.

Í bréfi til innviðaráðherra í gær vegna óskar borgarinnar um færslu flugvallargirðingarinnar segir Isavia:
„Félaginu er ekki fært að verða við þeirri beiðni nema að ráðherra staðfesti það að færsla girðingarinnar fari ekki gegn samkomulagi ríkis og borgar frá árinu 2019. Óskað er eftir skriflegri afstöðu Innviðaráðherra, sem ber faglega og pólitíska ábyrgð á rekstri og tilvist flugvallarins, til þeirrar beiðni,“ segir í niðurlagi bréfsins.
-Þið varpið ábyrgðinni á ráðherrann?
„Ábyrgðin er hans,“ svarar Sigrún Björk.
Hún leynir þó ekki þeirri skoðun sinni að bíða eigi eftir niðurstöðu um Hvassahraun eða annan kost.
„Byrja á því að ákveða hvar flugvöllur á að vera í framtíðinni fyrir suðvesturhornið, byggja hann upp og síðan að loka þessum.
Þetta er versta hugsanlega niðurstaða að gera þetta svona; að kremja lífið úr þessum þannig að hann verði óstarfhæfur án þess að vera tilbúinn með aðra lausn,“ segir framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: