Rússneska utanríkisráðuneytið birti yfirlýsinguna í gær og þar kemur fram að þar sem Íslendingar hafi tekið þátt í þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússum þá hafi verið gripið til þeirra aðgerða að setja níu einstaklinga á bannlista.
Í samtali við fréttastofu segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að ráðuneytið hafi engar upplýsingar um málið umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum en muni bregðast við ef á reynir.
Í yfirlýsingu Rússa kemur fram að í hópi níumenninganna séu þingmenn, ráðherrar, aðilar úr viðskipta- og menntasamfélaginu sem og fjölmiðlafólk auk ákveðinna aðila sem hafi tjáð sig á neikvæðan hátt um Rússlands og tekið þátt í að móta tillögur gegn Rússlandi.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að sextán Norðmönnum, þremur Færeyingum og þremur frá Grænlandi hafi verið bannað að koma til Rússlands.