Skoðun

Fíllinn í her­berginu

Hulda Sólveig Jóhannsdóttir skrifar

Bæjarlistinn hefur beitt sér undanfarin fjögur ár fyrir aukinni sérfræðiaðstoð inn í skólana. Tillaga okkar um iðjuþjálfun inn í grunnskólana var samþykkt í síðustu fjárhagsáætlun en betur má ef duga skal.

Skóli án aðgreiningar er stefna sem unnið er eftir í skólum landsins. Mikið hefur verið fjallað um þessa stefnu og sitt sýnist hverjum hvort vel hefur tekist að framfylgja markmiðum hennar sem eru að:

  • skapa framtíðarsamfélag fjölbreytninnar
  • mæta þörfum allra nemenda
  • leggja áherslu á stöðu nemenda með sérþarfir og að þeir eigi möguleika á að vera í venjulegum námshópum/bekkjum.

Til að hægt sé að framfylgja þessum markmiðum er mikilvægt að hafa góða skilvirka stoðþjónustu í skólunum og virk úrræði í verkfærakistu kennarans. Úrræði kennarans þurfa að vera fjölbreytt, aðgengileg og skilvirk.

Eins og staðan er í dag þá þarf að bæta aðgengi nemenda að viðeigandi sérfræðiúrræðum, s.s. sérkennara, þroskaþjálfara, talmeinafræðinga, iðjuþjálfa, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Sérfræðiaðstoðin verður að vera nálægt nemendunum og nemendur verða að fá viðunandi sérfræðiaðstoð þegar þeir þurfa á henni að halda.

Hingað til hefur mikið verið lagt uppúr stuðningi við einstaka nemendur og foreldra í skólakerfinu sem snýr einkum að greiningum. Lítil eftirfylgni hefur verið með hvernig niðurstöður greininga eru útfærðar eða nýtast í skólastarfinu, þ.e. þegar greiningar liggja fyrir tekur oft við bið eftir viðeigandi úrræði, bið sem ekki er hægt að sætta sig við.

Bæjarlistinn vill efla stoðþjónustu í skólum bæjarins og tryggja að nemendur fái þá aðstoð sem þeir þurfa. Hagsmunir nemenda og kennara fara saman. Með bættri þjónustu við nemendur inn í skólana aukast viðeigandi úrræði í verkfærakistu kennarans.

Höfundur skipar 2. sæti Bæjarlistans í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×