Síðastliðna viku hafa 50 sótt um vernd eða að meðaltali sjö einstaklingar á dag. Ef sjö daga meðaltal er notað sem forspárgildi má gera ráð fyrir að um 200 til viðbótar sækist eftir vernd á næstu fjórum vikum. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.
Samtals hafa 1.292 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá áramótum. Fjölmennasta þjóðernið voru einstaklingar með tengsl við Úkraínu en þar á eftir eru 260 einstaklingar með tengsl við Venesúela. Umsækjendur um alþjóðlega vernd frá áramótum skiptust á alls 33 ríkisföng.
Met slegið í fjölda umsókna
Í gær höfðu samtals 5.123.505 einstaklingarflúið stríðsátökin í Úkraínu til nágrannaríkja í Evrópu. Flestir hafa komið til Póllands eða 2.933.753 einstaklingar. Gert er ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem flýi stríðsátökin muni halda áfram aukast.
Alþjóðaflóttamannastofnunin áætlar nú að allt að 5 milljónir einstaklinga muni flýja en stofnunin hafði áður áætlað að sá fjöldi yrði nálægt 4 milljónum. Þá segir stofnunin að 7,1 milljónir óbreyttra borgara séu á flótta innan landamæra Úkraínu.
Þann 11. apríl var met slegið í heildarfjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi en aldrei áður hafa jafn margar umsóknir borist á einu ári, að sögn landamærasviðs ríkislögreglustjóra.