„Ég er ein af þeim sem fékk uppsagnarbréf frá Eflingu í gærkvöldi. Þar er ég hvött til að sækja aftur um stöðuna þegar hún verður auglýst. Ég var kjörin varaformaður eflingar árið 2019 og aftur árið 2021. Síðast þegar ég gáði var varaformaður félagsins lýðræðislega kjörin, ekki ráðinn eftir auglýsingu,“ skrifar Agnieszka í færslu á Facebook.
Þar birtir hún uppsagnarbréfið sem henni barst í gærkvöldi. Fram kemur í bréfinu að ástæða uppsagnar séu skipulags- og rekstrarbreytingar sem nái til allra stöðugilda Eflingar. Ný störf hjá félaginu verði þá auglýst og hún hvött til að sækja aftur um.
„Er þetta hluti af nýrri stefnu B-listans? Hvað næst? Ætla þau að auglýsa eftir fólki í stjórn? Nýjum formanni?“ spyr Agnieszka.
Hún segir í samtali við Vísi viss um það að Sólveig Anna sé í hefndarhug. Agnieszka var ein þeirra sem hvatti félagsmenn Eflingar til að kjósa Ólöfu Helgu Adolfsdóttur til formanns í kjöri sem fór fram í vor. Agnieszka var varaformaður í fyrri formannssetu Sólveigar Önnu og tók við formennskunni þegar Sólveig Anna sagði sig frá henni.
Sólveig Anna hefur frá því að greint var frá hópuppsögnunum ítrekað að stjórn félagsins hafi verið lýðræðislega kjörin og hafi því umboð félagsmanna til að framkvæma það sem stjórnin telji réttast.
„Við erum lýðræðislega kjörin forysta í þessu félagi við höfum umboð félagsfólks í þessu félagi til að leiða félagið, það er það sem við erum að gera,“ sagði Sólveig meðal annars í samtali við fréttastofu í gær.
Sólveig segir í samtali við Vísi að ekki sé verið að segja Agnieszku upp sem varaformanni félagsins. Hún sé hins vegar á ráðningarkjörum og allir sem eru við störf og séu launafólk hjá félaginu hafi fengið sama uppsagnarbréfið.