Verið var að ræða Hollustuhætti og mengunarvarnir en áður stefndi í að þingmenn stjórnarandstöðunnar myndu taka þingið í gíslingu, eins og það kallast; en þar kröfðust þeir að tekið yrði tillit til kröfu sem sett hefur verið um að tekin verði afstaða til tillögu um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd Alþingis til að fara í saumana á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Útboðið sem fram fór fyrir tveimur vikum hefur sætt harðri gagnrýni og hefur meðal annars Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur við Yale háskóla, en hún átti sæti í Rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði bankahrunið 2008, sagt að hún telji að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi verið brotin.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, tilkynnti nú rétt í þessu að forseti Alþingis hafi boðað þingflokksformenn á fund vegna málsins.
„Mér þykir ótrúlegt að við þingmenn þurfum að koma hérna upp trekk í trekk í trekk í marga klukkutíma, í fundarstjórn forseta, til að fara fram á jafn sjálfsagðan hlut og að hlé sé gert á þingfundi til að ræða niðurstöðu í risastóru máli sem varðar traust almennings á bankakerfinu, ráðherra og ríkisstjórninni. Það er loksins komið en því miður búið að taka alltof langan tíma,“ sagði Halldóra sem vonaðist til að takist að ná sátt í málinu.
Stjórnarliðar hafa lagt á það áherslu, í umræðu á þinginu í dag, að skipa megi rannsóknarnefnd eftir að ríkisendurskoðun hefur farið yfir málið. Stjórnarandstaðan hefur á móti bent á að það sé óþarfur millileikur, rannsóknarnefnd hafi miklu víðtækari heimildir; Halldóra líkti því fyrr í dag við að menn tækju sér til handagagns skrúfjárn fyrst þegar fyrir lægi að það þyrfti hamar.