Á Bifröst er allt í fullum gangi um þessar mundir við undirbúning við móttöku 150 flóttamanna frá Úkraínu. Von er á að þeir byrji að streyma til háskólaþorpsins í byrjun apríl og með því tvöfaldast í leiðinni fjöldi íbúa á Bifröst.
„Það hafa náttúrulega verið mun fleiri íbúar á þessu svæði þannig að við förum kannski upp í þá tölu aftur sem verður virkilega gaman. En ég held að það sé gott að fá þau hingað. Það verður gott að halda utan um fólk og við getum hlúið vel að þeim,“ segir Halldóra Lóa Þórhallsdóttir, formaður byggðarráðs Borgarbyggðar.

Háskólinn á Bifröst mun skaffa flóttamönnunum húsnæði og aðstoða þá við að koma sér fyrir.
„Hérna ætlum við að taka á móti þeim, á þessu svæði. Og eins og þið sjáið þá er þetta náttúrulega bara svona lítið hverfi með aðstöðu fyrir barnafólk og leikskóli hérna rétt fyrir ofan,“ segir Halldóra Lóa.
Eins og er eru um 70 herbergi og 17 íbúðir lausar á svæðinu sem eru í eigu háskólans.
„Við erum að gera okkur klár fyrir þessa móttöku og aðallega finna út hvað við eigum af sængurfötum, sængum, Við þurfum að gera heilt eldhús klárt. Þannig það er heilmikið í gangi hjá okkur,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor háskólans.

Dálítill hluti húsnæðisins er tómur og því biðlar háskólinn nú til fólks um að gefa hér húsgögn, borðbúnað og bara allt sem er hægt til að gera þetta heimilislegt.
Nýtir rússneskuna
Samfélagið virðist meira en tilbúið að taka á móti hópnum.
„Til dæmis komu skiptinemarnir strax og sögðu við getum hjálpað, maður sem býr hérna og sagði heyrðu ég er vanur að kenna íslensku, enn annar kom og sagði ég tala rússnesku,“ segir Margrét.

Við litum við hjá skiptinemum á svæðinu.
Roberta kemur frá Litháen, og kann rússnesku. Hana tala flestir frá Úkraínu og því ætlar Roberta að aðstoða við öll samskipti við flóttamannahópinn.
„Þau skilja rússnesku en ég mun veira meira en til í að reyna að læra smá úkraínsku í leiðinni ef ég get,“ segir Roberta.

Hún segir alla skiptinemana boðna og búna við að aðstoða flóttamannahópinn.
„Já, það erum við. Við erum bara lítill hópur skiptinema en allir sem ég hef hitt eru ótrúlega til í að aðstoða flóttamennina.“
