Allir þeir 132 sem voru um borð í vélinni fórust en um var að ræða vél af gerðinni Boeing 737-800 á vegum China Eastern Airlines. Vélin hrapaði um klukkustund eftir flugtak í Kunming, en ferðinni var heitið til Guangzhou.
Flugvélin hrapaði í fjallendi suður af bænum Wuzhou og vonast kínversk yfirvöld til að flugritarnir muni varpa ljósi á hvað hafi valdið slysinu.
Flugritarnir, eða „svarti kassinn“, eru tveir og nýtast þeir við að segja til um hvað olli flugslysum. Ferðritinn skráir meðal annars flughraða og flughæð flugvélarinnar, hröðun, snúning vélar og hita innan vélar og utan og fleira að því er segir á Vísindavefins . Hljóðritinn tekur svo upp hljóð í flugstjórnarklefanum, þar á meðal samtöl áhafnarinnar og samskipti hennar við flugumferðarstjórn.
Svo virðist sem að vélin hafi hrapað um 30 þúsund fet á innan við þremur mínútum og mátti sjá á myndböndum, sem fóru í dreifingu um netið, að vélin hafi hrapað nánast lóðrétt niður á jörðina.