Foreldrar tveggja ára stúlku sem lést eftir að hafa fengið Covid-19 sögðu í kvöldfréttum okkar í gær að heilbrigðiskerfið hefði brugðist þeim. Þú búa á Þórshöfn í Langanesbyggð í Norður-Þingeyjarsýslu og telja læknisþjónustu óásættanlega sem margir á landsbyggðinni búa við.
Þegar dóttir þeirra veiktist var næsti læknir á Kópaskeri sem er í 70 kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra.
Sveitarstjóri Langanesbyggðar kallar eftir því að stjórnvöld tryggi betri heilbrigðisþjónustu á svæðinu svo öryggi fólks sé ekki ógnað.
„Fólk hér hefur áhyggjur af þeirri heilbrigðisþjónustu og almennt þeirri þjónustu sem ríkisvaldið á að bjóða okkur hérna og ríkisvaldið er því miður að skerða þessa þjónustu yfirleitt of mikið á kostnað öryggisins,“ segir Jónas
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er ráðherra byggðarmála.
„Við erum auðvitað reyna allan tímann að tryggja það að fólk geti valið sér búsetu eftir vild og við erum að reyna að tryggja grunnþjónustuna eins og hægt er. Auðvitað til þess að skapa öryggi en líka til þess að þú hafir einhvern aðgang að þeirri þjónustu og það er skilgreining á hvað er grunnþjónusta sem við höfum verið að skoða meðal annars hjá Byggðastofnun og var starfshópur sem skilaði ágætis skýrslu hér síðast liðið vor. Síðan er það líka viðvarandi verkefni okkar að tryggja að það sé til nóg fjármagn til þessa. Að leiðirnar séu færar en við getum aldrei og ég ítreka aldrei verið með nákvæmlega sömu þjónustu alls staðar. Ekki á Íslandi, ekki í Danmörku og ekki um allan heim en við getum gert allt það sem við mögulega getum til að gera það eins best og við getum örugglega gert betur en við erum að gera í dag.“