Skoðun

Fram­sókn í Hafnar­firði

Valdimar Víðisson skrifar

Í byrjun mars kynnti Framsókn í Hafnarfirði framboðslistann fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem verða þann 14. maí næstkomandi. Listinn er skipaður öflugu og góðu fólki sem vill vinna vel fyrir Hafnarfjörð.

Mér hefur verið falið að leiða listann og er ég ákaflega þakklátur fyrir það traust. Ég hef starfað í bæjarmálunum á þessum kjörtímabili sem formaður í fjölskylduráði og varabæjarfulltrúi. Hef einnig tekið þátt í ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæinn. Fyrir utan störf mín á sviði bæjarmála þá er mitt aðalstarf að vera skólastjóri í Öldutúnsskóla. Ég hef tæplega 20 ára reynslu sem skólastjóri í grunnskólum, fyrst á Grenivík og síðan hér í Hafnarfirði. Sú reynsla hefur og mun áfram nýtast mér afar vel á vettvangi stjórnmálanna.

Fljótlega eftir að ég tók við sem skólastjóri Öldutúnsskóla þá settum við okkur það markmið að Öldutúnsskóli ætti að skipa sér í fremstu röð meðal grunnskóla landsins. Við höfum náð virkilega góðum árangri hvað það varðar. Við þurfum ekki annað en að rýna í niðurstöður á mælingum á starfi skólans til að sjá það. Og ég segi ,,við“ einfaldlega vegna þess að ég er ekki einn í þessu. Ég er með fullt af fólki með mér, nemendur, starfsmenn og foreldra. Saman náum við þessum árangri.

Þannig sýn hef ég einnig á stjórnmálin. Við þurfum að vinna saman. Vinna saman að því að finna bestu mögulegu leiðirnar. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála en með því að ræða málin þá oftar en ekki náum við góðri lendingu. Ég hef aldrei og mun aldrei tala niður skoðanir annarra, þannig pólitík hentar mér ekki. Það er svo mikilvægt að hafa ólíkar skoðanir til að framþróun geti átt sér stað. Með því að hafa ólíkar skoðanir þá skoðum við allar hliðar og reynum að ná bestu mögulegu leiðinni fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Málefnavinna er í fullum gangi og það eru nú þegar komnar fullt af hugmyndum um það hvernig við gerum góðan bæ enn betri. Við eigum eftir að kynna okkar áherslur vel fyrir íbúum næstu vikurnar.

Við í Framsókn höfum starfað að heilindum á þessum kjörtímabili. Erum stolt af þeim verkum sem við höfum staðið fyrir og komið í framkvæmd.

Framundan eru skemmtilegar vikur í kosningabaráttunni. Við ætlum að heyja öfluga kosningabaráttu. Kosningabaráttu sem mun einkennast af fagmennsku, heiðarleika og gleði.

Við ætlum okkur stóra hluti í kosningunum í vor.

Framtíðin ræðst á miðjunni.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×