Ríflega tvær milljónir Úkraínumanna hafa nú flúið stríðið við Rússa. Flestir hafa farið til Póllands en þangað hefur meira ein milljón flóttamanna komið.
Páll Stefánsson ljósmyndari hefur síðustu daga verið á ferð við landamærin að Úkraínu en hann vinnur að bók um flóttafólk. Sem stendur er hann staddur í Hrebenne í Póllandi þar sem komið hefur verið upp sérstökum móttökubúðum fyrir flóttafólk.
„Þetta er bara hryllingur að þetta sé að gerast 2022. Maður hefði aldrei trúað þessu,“ segir Páll.
Nokkuð kalt er enn í veðri sem gerir flóttann fyrir ung börn og gamalmenni erfiðari.
„Það er voðalega kalt og hérna það er rétt við frostmark og fólk er að koma hérna gangandi yfir landamærin í stríðum straumi.“
Flestir koma með lítið með sér, jafnvel aðeins einn bakpoka. Hópurinn samanstendur af konum, börnum og eldri mönnum en karlmönnum á aldrinum 18-60 ára hefur verið gert að vera áfram í Úkraínu og berjast í stríðinu.
Á móttökustöðinni í Hrebenne hefur verið sett upp súpueldhús og tjöld þar sem fólk getur sest og fengið sér að borða. Þá má líka finna þar hlý föt. Frá Hrebenne er fólkinu, sem kom gangandi yfir landamærin, ekið til höfuðborgar Póllands.
„Það eru rútur sem eru að koma þeim til Varsjár og það eru um 450 kílómetrar héðan.“
Flestir þeirra sem sjá um að taka á móti fólkinu og aðstoða það eru sjálfboðaliðar. Páll segir suma þeirra óttast að stríðið geti breiðst út til Póllands ef Pútín Rússlandsforseti verður ekki stöðvaður
„Þeim finnst þetta bara bræðraþjóð og svo er líka fólk er bara hrætt við að Rússarnir haldi áfram.“