Átök hafa staðið yfir í Úkraínu í níu daga, eða síðan Rússar réðust inn í landið í síðustu viku.
Í gærkvöldi greindi stjórnarformaður Shakhtar, Sherhyi Palkin, frá því að starfsmaður félagsins hefði fallið á vígvellinum.
„Einn starfsmaður okkar var myrtur. Hann var unglingaþjálfari. Hluti af rússneskri byssukúlu hæfði hann,“ sagði Palkin.
Fyrr í vikunni greindu leikmannasamtökin FIFPRO frá því að tveir úkraínskir fótboltamenn hefðu fallið í stríðinu. Þeir hétu Dmytro Martynenko og Vitalii Sapylo og voru 25 og 21 árs.
Shakhtar er stærsta félag Úkraínu ásamt Dynamo Kiev. Shakhtar er með tveggja stiga forskot á toppi úkraínsku úrvalsdeildarinnar. Keppni þar í landi var eðlilega hætt eftir innrás Rússa.
Shakhtar hefur ekki getað spilað heimaleiki sína í heimaborginni Donetsk eftir innrás Rússa á Krímskaga 2014. Shakthar spilaði heimaleiki sína í Lviv 2014-16 og Kharkiv 2017-20 en frá því í maí 2020 hefur Ólympíuleikvangurinn í Kænugarði verið heimavöllur liðsins.