Árásir innrásarhersins á kjarnorkuverið hafa vakið hörð viðbrögð út um allan heim og áköll eftir aukinni aðkomu Atlantshafsbandalagsins að átökunum sem nú standa yfir víðsvegar um Úkraínu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, eru meðal þeirra sem hafa fordæmt árásir Rússa á kjarnorkuverið og kallað eftir því að öllum átökum verði hætt á svæðinu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að árásirnar á verið væru ógn við alla Evrópu. Leiðtogarnir þrír hafa allir rætt við Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, frá því að eldur braust út í kjarnorkuverinu í nótt.
Yfirvöld í Úkraínu greindu frá því að Rússar hefðu reynt að hamla slökkvistarfinu en þó náðist að ráða að niðurlögum eldsins á um fjórum tímum. Hann kom upp í „æfingahúsnæði“ og er sagður hafa logað á þremur hæðum.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin virkjaði viðbragðsáætlun í kjölfar fregna af árásunum og eldsvoðanum. Sérfræðingar í Úkraínu segja þó ekki hættu á ferðum eins og er og að kjarnakljúfar versins, sem eru sex talsins, séu vel varðir.
Hætta gæti hins vegar skapast ef rafmagn fer af kælibúnaðinum.
Erlendir miðlar hafa eftir þeim sem þekkja til að um sé að ræða fordæmalausar aðgerðir af hálfu Rússa, það er að segja að gera árás á kjarnorkuver, og að illa gæti farið.
BBC hefur þó eftir Graham Allison, kjarnorkuöryggissérfræðingi við Harvard University, að meiri líkur væru á því að Rússar freistuðu þess að loka fyrir orkuframleiðslu á svæðinu frekar en að þeir hefðu áhuga á því að valda kjarnorkuslysi.