Skoðun

Er Degi alveg sama?

Jón Arnór Stefánsson skrifar

Síðastliðið haust hlustaði ég á viðtal við Dag B. Eggertsson þar sem hann sagði frá því þegar hann sem unglingur þrýsti á Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, að byggja íþróttahús í Árbænum. Krakkarnir í Árbænum upplifðu hverfið sem mjög vanrækt úthverfi og tóku til sinna ráða.

Þessa tilfinningu þekkja þeir sem búa í Laugardalnum. Þar er ekkert fjölnota íþróttahús til staðar fyrir þá sem stunda íþróttir með hverfisfélögunum Ármanni og Þrótti. Staðreyndin er sú að Laugardalurinn, sem er samkvæmt borginni stærsta uppbyggingarsvæðið í dag, er eina borgarhverfið þar sem íþróttahús vantar fyrir íþróttafélögin sem þar halda úti starfsemi.

Þeir sem þekkja til starfs íþróttafélaga vita hversu mikilvægu hlutverki félögin og íþróttaaðstaðan gegna í félags- og forvarnarstarfi. Það gera þau með því að búa til umgjörð fyrir hreyfingu og samveru. Hápunktur dagsins hjá mörgum krökkum er að fara í íþróttahúsið í hverfinu sínu að æfa og hitta vinina. Íþróttaviðburðirnir sem þar fara fram skapa líka stemmningu og sameina fjölskyldur og vini sem mæta til að horfa á viðburðina, en ekki síður til að hitta aðra úr hverfinu. Þetta ætti Dagur að geta vitnað um, t.d. eftir að hafa mætt á úrslitakeppnina í körfuboltanum í íþróttahúsi KR.

Iðkendur í Laugardalnum þekkja þetta hins vegar ekki úr sínu hverfi. Þar er þetta ekki í boði. Degi hefur verið boðið að koma í heimsókn til að sjá með eigin augum þá bágbornu aðstöðu sem krakkar sem æfa körfubolta hjá Ármanni búa við. Körfuknattleiksdeild félagsin er ein sú fjölmennasta í Reykjavík með rúmlega 300 iðkendur, en krakkarnir þurfa að gera sér að góðu að æfa í agnarsmáum íþróttasölum Laugarnes- og Langholtsskóla, rýmum sem eru á stærð við áhaldageymslur íþróttahúsa annarra liða. Dagur hefur ekki enn séð sér fært að mæta.

Steinar Kaldal, þjálfari hjá körfuknattleiksdeild, spurði í nýlegri blaðagrein hvort rétt væri að þær 100 milljónir sem kynntar voru í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022 sem fjármagn til íþróttahúss við gervigrasvöllinn í Laugardal væru ekki örugglega fyrsta skrefið í byggingu íþróttahúss fyrir Ármann og Þrótt. Borgarfulltrúar meirihlutans hafa kosið að svara engu. Enn á ný virðist strategían vera sú að þvæla umræðu um þjóðarhöll inn í málið og forðast þannig að gefa skýr svör.

Mig langar því að spyrja aftur. Stendur til að byggja fjölnota íþróttahús fyrir íþróttafélögin í hverfinu, eða er Degi og félögum alveg sama um íþróttaiðkendur hverfisfélaga Laugardalsins?

Höfundur er íbúi í Laugardal.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×