Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Selfoss 26-27 | Dramatískur sigur Selfyssinga

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Olís deild karla vetur 2021 FH Selfoss handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét
Olís deild karla vetur 2021 FH Selfoss handbolti HSÍ / ljósm. Hulda Margrét

Selfoss stóð uppi sem sigurvegari í hörkuspennandi leik í 16. umferð Olís deildar karla gegn Stjörnunni fyrr í kvöld. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem Stjarnan leiddi með tveimur mörkum í hálfleik en eftir harða baráttu sigraði Selfoss með einu marki. Lokatölur 26-27.

Stjarnan hóf leikinn af miklum krafti og eftir aðeins sex mínútna leik var staðan orðin 5-1. Halldór Jóhann, þjálfari Selfoss, tók þá leikhlé í von um að hrökkva sínum strákum í gang. Það gekk eftir því eftir um stundarfjórðung var staðan orðin jöfn, 6-6.

Eltingarleikurinn hélt áfram en mikið jafnræði var þó með liðunum. Stjarnan var þó ekki farin að gefast upp og gáfu þeir í rétt undir lok fyrri hálfleiksins sem skilaði þeim tveggja marka forystu er hálfleikurinn var flautaður á. Hálfleikstölur 13-11.

Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik kviknaði líf í selfyssingum og tókst þeim að ná fjögurra marka forystu, 15-19. Stjarnan náði samt sem áður að jafna leikinn á ný þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

Úrslitin réðust þó ekki fyrr en á lokasekúndum og stóð Selfoss uppi sem eins marks sigurvegari.

Afhverju vann Selfoss?

Það hefðu í raun bæði lið getað staðið uppi sem sigurvegarar í kvöld. Það sem réði úrslitum var fyrst og fremst aginn í Selfoss liðinu sem það hélt út leikinn. Þeir voru heilt yfir skipulagðari og börðust fram á lokasekúndu. Stjarnan átti marga tapaða bolta sem selfyssingar nýttu sér er þeir keyrðu hart í bakið á þeim. Markvarsla Selfoss hafði einnig mikið að segja um úrslitin en Vilius átti frábæran leik í markinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur í liði Selfoss með sjö mörk úr sjö skotum. Ragnar Jóhannson var einnig flottur í leiknum en hann var með sex mörk. Eins og fram hefur komið átti Vilius Rasimas góðan leik í markinu en hann var með fimmtán varða bolta, þar af tvö víti, sem skilaði honum 37% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Það má segja að áhlaup Selfoss hafi komið Stjörnunni í opna skjöldu sem hafði áhrif á spilamennsku Stjörnunnar. Það vantaði eitthvað upp á alla þætti liðsins en fyrst og fremst kom tapið vegna töluvert margra tapaðra bolta. Einnig voru færin ekki nægilega vel nýtt.

Hvað gerist næst?

Liðin eiga bæði leik næstkomandi fimmtudag. Selfoss mun leggja leið sína á Seltjarnarnesið þar sem það mætir Gróttu. Stjarnan mun einnig leika útileik er þeir mæta Val.

Patrekur Jóhannesson: Mér finnst bara að margir leikmenn hjá mér eigi bara að gera betur

„Mér líður ekki vel. Þetta var svekkjandi en þetta var hörkuleikur. Við hefðum átt að gera betur allavega þarna í lokin, mér fannst við getað gert betur þar. En þetta var bara jafn leikur og það komu ágætiskaflar hjá okkur. Við leiðum í hálfleik. En mér fannst við ekki vera nógu klókir á köflum. Svekkjandi. Mér líður ekki vel.“ Sagði Patrekur Jóhannesson strax að leik loknum.

„Í fyrri hálfleik erum við 13-11 yfir. Við erum að spila mjög fínt en við förum með einhver tíu eða ellefu færi þar sem hann (Vilius Rasimas) ver. Þeir hafa verið með örlítið betri markvörslu, þó svo að Sigurður Dan og Arnór Freyr stóðu sig vel í fyrri hálfleik. Það datt síðan aðeins niður. En Sigurður Dan stóð sig vel þegar hann kom inná. Þetta eru bara smáatriði. Við töpum bara með einu marki og þegar maður kíkir á þetta þá er örugglega eitthvað sem ég sé sem mér finnst jákvætt.“

„Mér finnst bara að margir leikmenn hjá mér eigi bara að gera betur og það vantaði bara eitthvað, hver svo sem skýringin er. Hvort þessi janúarmánuður, þar sem við æfðum kannski ekki nægilega vel, útaf Covid og fleiri, en það er bara það sem allir hafa verið að lenda í. Hvort að það sé eitthvað. En við þurfum bara meiri gæði. Það er bara að lýta í eigin barm. Það eru nátturlega alltaf einhverjir dómar sem hægt er að skoða og eru mjög skrýtnir. En það er bara þannig og verður alltaf þannig. Við þurfum bara að lýta í eigin barm og fá meiri gæði. Það voru fín gæði fyrir áramót og við þurfum bara að kalla á það aftur. Núna 2022 þá verðum við bara að vera hreinskilin með það að það þurfa fleiri leikmenn að spila betur.“

„Það er leikur á fimmtudaginn á móti Val og það er bara alltaf næsta æfing. Auðvitað þýðir ekkert að vorkenna sér. Við erum með þessi átján stig, sem við stöndum á og gerðum vel fyrir áramót en núna eftir áramót erum við ekki að spila nógu vel og það þýðir ekkert að fara leynt með það. Við þurfum bara að laga það. Og hver og einn þarf að lýta í eigin barm.“ Sagði Patrekur svekktur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira