Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við Vísi upp úr klukkan 13. Hann segir að morguninn hafi verið rólega af stað en tilkynningar farið að hrannast inn upp úr hádegi.
„Þetta eru mörg útköll á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Við höfum þurft að manna lokunarpósta víða á höfuðborgarsvæðinu og svo hafa borist fjölda tilkynninga um fasta bíla, meðal annars á Mosfellsheiði, í Borgarnesi, Holtavörðuheiði.
Það eru um tíu bílar fastir á Mosfellsheiði og svo barst tilkynning um rútu með sjö manns um borð sem var föst í Borgarfirði.
Svo hafa borist nokkrar tilkynningar um foktjón – klæðingar, gróðurhús, skilti og ýmislegt fleira. Bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum,“ segir Davíð Már.
Hann minnir fólk á að það sé í raun ekkert ferðaveður og svo að fólk verði duglegt að moka frá niðurföllum.