Þetta staðfestir Sveinn Guðmarsson fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins í samtali við Vísi.
„Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins er með 28 á sinni skrá yfir þá sem staddir eru í Úkraínu. Þar af eru sextán íslenskir ríkisborgarar, hinir eru með náin tengsl við íslenska ríkisborgara, það er makar eða börn,“ segir Sveinn.
„Þetta er meiri fjöldi en við gáfum upp í gær og það helgast af því að fleiri hafa látið í sér heyra og sett sig í samband við borgaraþjónustuna,“ segir Sveinn.
Hann segir ekki standa til eins og er að boða til neyðarflutninga frá Úkraínu. Hann segir þorra fólksins hafa búsetu í Úkraínu.
„Við erum í mjög nánu samstarfi við norrænar systurstofnanir og eins og sakir standa eru ekki áform um neyðarflutning. Tilmæli eru almennt til fólks að huga mjög vel að öryggi sínu og meta allar fyrirætlanir út frá því. Út frá því til dæmis að það að reyna að komast úr landi með ótryggum leiðum er ekki það öruggasta sem viðkomandi getur gert.“
Hægt er að fylgjast með gangi mála í Úkraínu í vaktinni á Vísi.