„Veðrið á Patreksfirði hefur versnað mikið, vindur er kominn í austan rúmlega 20 m/s á Brellum, það snjóar töluvert og skefur. Veðurspáin fyrir nóttina gerir ráð fyrir austan og norðaustan 20-28 m/s með talsverði snjókomu í nótt,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Að því er kemur fram í færslu lögreglunnar á Vestfjörðum var ákvörðun tekin um að rýma húsin eftir að Veðurstofan lýsti yfir hættustigi í dag. Um er að ræða átta íbúðarhús, , annars vegar hús við Hóla og hins vegar hús við Mýra.
Í heildina hafa 28 íbúar þurft að yfirgefa heimili sín tímabundið vegna hættustigsins. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni féll minniháttar snjóflóð aðfaranótt sunnudags ofan við reitinn sem hefur nú verið rýmdur.
„Varnargarður ver hluta reitsins en framkvæmdir eru hafnar við garð sem á að verja þann hluta sem nú hefur verið rýmdur,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Á norðanverðum Vestfjörðum, Ísafirði og nágrenni, er óvissustig í gildi vegna hættu á snjóflóðum. Ofanflóðaeftirlit Veðurstofu Íslands fylgist vel með aðstæðum og spá.
Ekkert ferðaveður er á svæðinu í kvöld eða í nótt þar sem margir fjallvegir á Vestfjörðum eru ófærir og getur færð sömuleiðis spillst með skömmum fyrirvara.