Verkið er boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðum skal skilað rafrænt fyrir klukkan 14 þriðjudaginn 23. mars 2022, að því er fram kemur í auglýsingunni. Eftir lok útboðsfrests verður tilkynnt um nöfn bjóðenda og verðtilboð.

Í verkinu felst lagning 10,4 kílómetra langs vegarkafla í Þorskafirði og um 200 metra kafla á Djúpadalsvegi. Verkinu skal að fullu lokið 15. október 2023. Eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 í síðustu viku verður þá hægt að sneiða framhjá Hjallahálsi en núna er unnið að lagningu tengivegar milli Hallsteinsness og Djúpadals. Jafnframt er unnið að brúun Þorskafjarðar. Fyrsti áfanginn, sjö kílómetra vegarkafli í Gufufirði milli Skálaness og Gufudals, var kláraður síðastliðið sumar.
Tveir síðustu áfangarnir í endurnýjun þjóðvegarins um Gufudalssveit eiga enn eftir að fara í útboð, þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Síðar á þessu ári er gert ráð fyrir að næsti áfangi verði boðinn út; kafli yfir Gufufjörð og út í Djúpafjörð að hluta. Lokaáfanginn, stærri brúin yfir Djúpafjörð, verður væntanlega boðinn út á næsta ári, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, sagðist í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku vonast til að heildarverkinu lyki árið 2024. Hann hafði þó þann fyrirvara á að það gæti dregið til ársins 2025 enda væri þetta mjög viðamikið verk á litlu svæði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: