Mæður oftar á þriðju vaktinni
Rannsókn sem gerð var um þriðju vaktina á tímum kórónuveirunnar sýndi að yfirgnæfandi líkur voru á því að móðirin væri að taka þriðju vaktina í samböndum þar sem foreldrar eru móðir og faðir. Hafliði segir ábyrgð, álag og frumkvæði oft koma upp í ráðgjöf og þessi umræða um vaktina snýst um að ná jafnvægi hjá pörum þar sem báðir aðilar eru sáttir við skiptingu verkefna.
„Með skipulagi og með því að deila niður verkefnum, þá þarf líka að sleppa,“
segir Hafliði um ferlið að verkaskipta innan heimilisins.
Þarf að sleppa
Það reynist oft erfitt að sleppa tökum á verkefnum því það er ekki traust til staðar eða þá að það er ekki vaninn að skipta þessu. Þá geta komið upp erfiðleikar og togstreita svo fólk þarf að taka gott samtal ef það ætlar að gera þessa nauðsynlegu breytingu. Það þarf að fara yfir það hver á að sinna hvaða verkefni, hvernig það á að framkvæma það, hvar ábyrgðin liggur og svo þarf að leyfa foreldrinu að taka ábyrgðina sem því var úthlutað.

Mismikill metnaður
Stundum kemur skiptingin af sjálfum sér því báðir aðilar hafa skilning á því hvað þarf að gera og hvernig á að framkvæma það. Þá er parið samstíga og allir sáttir með skiptingu verkefna og hvernig verkefnunum er sinnt. Vandinn er þegar það er mismikill metnaður og frumkvæði hjá aðilunum í því að gera þetta almennilega. Þá getur það gerst að verkefnin séu ekki jafn vel unnin og þau hafa verið hjá hinum aðilanum upp að þessu og þá myndast pirringur.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.