Borgarstjórinn Jim Watson segir borgina vera „stjórnlausa“ þar sem mótmælendur séu mun fjölmennari en lögregla. Sagði hann mótmælin ógna öryggi íbúa borgarinnar, að því er segir í frétt BBC.
Mótmælendur hafa lamað miðborg Ottawa með því að koma vörubílum og tjöldum fyrir víðs vegar á vegum.
Aðgerðirnar, sem mótmælendur hafa kallað „Frelsislestina“ beindust upphaflega gegn kröfum stjórnvalda að vörubílstjórar væru skyldaðir til að láta bólusetja sig gegn Covid-19.
Watson segir að mótmælendur verða sífellt ótillitssamari í aðgerðum sínum þar sem þeir blási í lúðra, notist við sírenur og kveiki í flugeldum þannig að þetta líkist einna helst partýhöldum.
„Við erum klárlega ofurliði borin og erum að tapa þessari baráttu,“ sagði Watson í útvarpsviðtali. „Við verðum að snúa þessu við og ná borginni okkar aftur.“
Borgarstjórinn hefur ekki greint frá því til hvaða aðgerða hann kunni að grípa, en yfirmenn hjá lögreglu sögðu í gær að eftirlit yrði aukið og að þeir yrðu mögulega handteknir sem reyni að aðstoða mótmælendur.
Með því að lýsa yfir neyðarástandi verður yfirvöldum vett auknar heimildir í baráttu sinni.