Hlutabréfaverð félagsins, sem birti ársuppgjör sitt síðasta miðvikudag, hefur verið undir talsverðum söluþrýstingi á undanförnum vikum og mánuðum og lækkað um liðlega 20 prósent frá því í lok ágúst í fyrra þegar það var hvað hæst. Það þýðir að um 150 milljarðar króna hafa þurrkast út af markaðsvirði félagsins – það hefur fallið úr 750 milljörðum í tæplega 600 milljarða – á undanförnum fimm mánuðum.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga samanlagt um 30 prósenta eignarhlut í Marel sem er bæði skráð á markað hér landi og í Amsterdam í Hollandi. Stærsti hluthafi Marels er hins vegar fjárfestingarfélagið Eyrir Invest, sem er að stórum hluta í eigu feðganna Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marels, og Þórðar Magnússonar, en eignarhlutur þess nemur tæplega 25 prósentum.
Hlutabréfaverð Marel stendur nú í 778 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá því í lok desember árið 2020.
Samkvæmt nýbirtu uppgjöri námu tekjur Marels á síðasta ársfjórðungi 2021 rúmlega 367 milljónum evra, jafnvirði um 53 milljarðar íslenskra króna, og jukust um nærri sjö prósent frá sama tíma. Hagnaðurinn nam 28,5 milljónum evra, og lækkaði aðeins á milli ára, en heilt yfir var uppgjör félagsins í línu við meðalspár greinenda.
Þrátt fyrir það hefur gengið félagsins í kjölfarið lækkað um liðlega 4 prósent eftir birtingu uppgjörsins í samtals um 2,5 milljarða króna veltu í Kauphöllinni á fimmtudag og föstudag.
Pantanir námu yfir 400 milljónum evra á fjórðungnum, sem var talsvert meira en spár gerðu ráð fyrir, en á móti kemur var reksturhagnaður (EBIT) Marels 41 milljón evra, sem var nokkuð undir væntingum greinenda.
Í uppgjörstilkynningu Marels kom fram að pantanabókin hafi staðið í 569 milljónum evra í árslok. Á liðnu ári var slegið met í pöntunum – þær námu samtals 1,5 milljarði evra og jukust um 22 prósent frá 2020 – og að áfram er sögð sterk eftirspurn, drifin áfram af nýsköpun og aukinni nálægð við viðskiptavini með fjölgun framlínustarfsmanna um heim allan.
Stjórnendur Marels gera ráð fyrir að áfram verði tafir og verðhækkanir í aðfangakeðju vegna faraldursins sem muni hafa áhrif á fyrri árshelmingi félagsins á árinu 2022. Ljóst er því að það verður áfram krefjandi fyrir félagið að bæta rekstrarhagnað sinn fram á mitt þetta ár.
Í afkomutilkynningu félagsins í vikunni, sem var send út eftir lokun markaða á miðvikudag, var haft eftir Árna Oddi að „hagfelldar markaðsaðstæður, sterk staða og fjárhagsstyrkur fyrirtækisins geri Marel nú „kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang.“
Í viðtali við Innherja í gær sagði Árni Oddur að áform um stórar yfirtökur væru gerðar í því skyni að ná metnaðarfullum markmiðum um tekjuvöxt sem þarf að vera töluvert meiri á næstu fimm árum en hann hefur að meðaltali verið á síðustu fimm.
Fjárfesting í sölu- og þjónustuneti í miðjum heimsfaraldri hafi skilað sér í því að tæknifyrirtækið sé í góðri stöðu miðað við keppinauta og býst við að „dulinn kostnaður“ vegna tafa og verðhækkana í aðfangakeðju, sem nemur um tveimur prósentum af tekjum Marel, muni ganga til baka á seinni hluta ársins.
Í uppgjörstilkynningu Marel kom fram að fyrirtækið standi við markmið sín um 12 prósenta árlegan meðalvöxt á árunum 2017-2026 og tekur það fram að vöxturinn frá 2017-2021 hafi numið 7 prósent að meðaltali. Vöxturinn frá 2022-2026, bæði innri og ytri vöxtur, þarf því að nema um 16 prósentum á ári til þess að félagið nái markmiðum sínum.
„Markmiðið er vissulega metnaðarfullt en við stefnum ótrauð á það í krafti nýsköpunar, markaðsóknar og ytri vaxtar,“ sagði Árni Oddur í viðtali við Innherja.