Eins og greint var frá í gær var dregin upp afar neikvæð mynd af stjórnarháttum Viðars og Sólveigar í úttekt sem gerð var af óháðum greiningaraðila fyrir skrifstofu Eflingar.
Úttektin er byggð á viðtölum við 48 starfsmenn skrifstofunnar og segja greinendurnir það mikið áhyggjuefni hve tíðrætt þeim varð um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu Viðars.
Sólveig Anna er nú aftur í framboði til formanns félagsins en formannskosningin hefst í næstu viku, þann 9. febrúar, og stendur í viku.
Næstu stjórnar að ráða framkvæmdastjóra
Viðar og Sólveig hafa unnið náið saman síðustu ár en Viðar segist ekki koma nálægt framboði Sólveigar nú með beinum hætti. „Ég er bara einn af fjölmörgum sem styður jákvæðar breytingar í verkalýðshreyfingunni. En ég er ekki aðili að framboðinu,“ segir hann.
En ertu að aðstoða hana eitthvað með framboðið?
„Ég hef unnið svona smá sjálfboðastörf… hengt upp eitt eða tvö plaköt.“
Langar þig að koma aftur inn í félagið sem framkvæmdastjóri ef Sólveig vinnur formannskjörið?
„Það er auðvitað bara eitthvað sem að stjórn og ný forysta ákveður í félaginu þegar þar að kemur. Ég held að það sé náttúrulega ljóst að ef að Baráttulistinn [listi Sólveigar Önnu] sigrar í þessum kosningum þá verður eitthvert verk fyrir höndum að byggja upp starfsemina á ný. Og það er þá bara þeirra að finna út úr því.“
Hann útilokar því alls ekki að hann gæti snúið aftur til starfa innan Eflingar.
„Nei, ég meina.. Það væri mér náttúrulega bara heiður að geta fengið að taka þátt í því verkefni að halda áfram að byggja hér upp raunverulega öfluga verkalýðshreyfingu sem vinnur fyrir félagsfólk. Svo sannarlega.“
Fjallað var um nýja úttekt á starfsháttum Viðars og Sólveigar í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar var rætt við bæði Viðar og núverandi framkvæmdastjóra Eflingar sem svarar ásökunum hans. Hægt að horfa á fréttina í spilaranum hér að neðan og nálgast ítarlegri umfjöllun í fréttunum fyrir neðan hana: