Í dag var tilkynnt að skíðagöngukonan Kristrún Guðnadóttir og alpagreinamaðurinn Sturla Snær Snorrason yrðu fánaberar Íslands á setningarhátíðinni sem hefst klukkan 12 á morgun.
Sami háttur er því hafður á og þegar Ólympíuleikarnir í Tókýó voru settir síðasta sumar, að í stað eins fánabera hjá hverri þjóð eru fánaberarnir tveir, ein kona og einn karl.
Keppendur þjóðanna munu ganga inn á Þjóðarleikvanginn í Peking í röð eftir kínverska stafrófinu og mun íslenski hópurinn því koma inn um miðbik inngöngunnar.
Keppendur Íslands í Peking:
- Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, alpagreinar kvenna – svig, stórsvig og risasvig
- Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
- Kristrún Guðnadóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga
- Snorri Einarsson, skíðaganga karla – 15km F (frjáls aðferð), 30km skiptiganga, 50km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð), liðakeppni í sprettgöngu
- Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og liðakeppni í sprettgöngu
Snorri Einarsson keppir fyrstur Íslendinganna í Peking, í 30 km skíðagöngu á sunnudaginn klukkan 7 að íslenskum tíma. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppir svo í stórsvigi aðfaranótt 7. febrúar og Isak Stianson Pedersen og Kristrún í sprettgöngu að morgni 8. febrúar. Fyrsta grein Sturlu er stórsvig aðfaranótt 13. febrúar.