Lyfjatengdum andlátum heldur áfram að fjölga, þó að læknar séu ekki eins viljugir til að skrifa út ávanabindandi lyf og áður. Kompás fjallaði í gær um hinn nýja ópíóíðafaraldur sem skellur nú á þjóðinni, með löglegum og ólöglegum, hreinum og óhreinum, verkjalyfjum sem flæða hér um allt. Við vinnslu þáttarins var rætt við fjölda sérfræðinga um þróun faraldursins hér og sögðu sumir það nokkra einföldun að tala um faraldur vegna ópíóíða eingöngu. Vandamálið væri enn stærra og snúi að ofneyslu blandaðra lyfja. Og fjöllyfjanotkun með ávanabindandi lyfjum er alltaf að aukast.
Metfjöldi fólks leysir út metfjölda lyfja
Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu hafa aldrei fleiri einstaklingar leyst út jafn mörg ávanabindandi lyf yfir árið eins og í fyrra. Þetta voru rúmlega þrjú þúsund manns sem leystu út margar tegundir af ávanabindandi lyfjum, þar af var um þriðjungur eldri borgarar.
Tíu efni í sömu manneskjunni
Lyfjatengd andlát hafa aldrei verið fleiri á hálfu ári en þau voru í fyrra frá janúar til júní, 24. Samkvæmt svörum Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræðum við fyrirspurn Kompás, er í flestum tilvikum um að ræða blöndu af mörgum mismunandi efnum sem leiðir fólk til dauða. Stundum eru greind allt upp í 10 mismunandi efni í þeim sem deyja.
Norðurlandameistarar í hættulegum lyfjum
Varðandi notkun á ávanabindandi lyfjum á Norðurlöndunum koma Svíar í öðru sæti á eftir Íslendingum, en við notum samt 30 prósent meira heldur en þeir. Íslendingar tróna langefst á toppnum þegar kemur að morfínskyldum verkjalyfjum, eða ópíóíðum, þunglyndislyfjum, róandi og örvandi lyfjum. Og hafa ber í huga að þetta eru tölur úr gagnagrunnum heilbrigðisyfirvalda sem byggja á ávísunum frá læknum, en nær ekki til ólöglega markaðarins.