Innherji

BSRB hafnar öllum hugmyndum um niðurskurð hjá hinu opinbera

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Hún vill útrýma kynbundnum launamun.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Hún vill útrýma kynbundnum launamun. Vísir/Vilhelm

Á undanförnum mánuðum hefur BSRB krafist þess að gripið verði til aðgerða til að auka jöfnuð og tryggja afkomuöryggi fólks, að sögn Sonju Ýr Þorbergsdóttir formanns BSRB.

„Um fjórðungur launafólks, helmingur atvinnulausra og 80 prósent öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt könnunum Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins frá því á síðasta ári. Í næstu viku verða kynntar niðurstöður nýrrar könnunar Vörðu sem sýnir að staða launafólks hefur versnað enn frekar. Erfiðleikarnir eru mestir hjá öryrkjum, atvinnulausum, innflytjendum og einstæðum foreldrum," segir Sonja.

Meirihluti aðildarfélaga BSRB gerir kjarasamninga við ríki og sveitarfélög en þeir samningar losna 31. mars 2023. Viðræður aðildarfélaga þeirra hefjast því síðar en á hjá félögum á almennum vinnumarkaði. Undirbúningur fyrir kjaraviðræðurnar og vegna þeirra kjarasamninga sem losna á þessu ári er að hefjast hjá aðildarfélögum bandalagsins.

BSRB vilja styrkja almannaþjónustu

„BSRB leggur áherslu á að lausnina við langvinnum skaða af COVID-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu," segir Sonja og bætir við að með því að efla jöfnunarhlutverk skattkerfisins, styrkja afkomutryggingu og efla atvinnuuppbyggingu sé stuðlað að velsæld og verðmætasköpun. 

Í næstu viku verða kynntar niðurstöður nýrrar könnunar Vörðu sem sýnir að staða launafólks hefur versnað enn frekar. Erfiðleikarnir eru mestir hjá öryrkjum, atvinnulausum, innflytjendum og einstæðum foreldrum.

„Þá er einnig mikilvægt að styrkja almannaþjónustuna enda leggur hún grunninn að góðri heilsu, þekkingu og færni til að takast á við þær samfélagsáskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna áhrifa heimsfaraldursins og loftslagsbreytinga. BSRB hafnar algjörlega öllum hugmyndum um niðurskurð í opinberum rekstri enda mun niðurskurður á þessum tímapunkti óhjákvæmilega auka ójöfnuð og draga úr velferð," segir hún.

Viðurkenna þurfi framlag framlínufólks

Þá leggur bandalagið áherslu á að laun og kjör starfsfólks í almannaþjónustu verði samkeppnishæf, loforð stjórnvalda um jöfnun launa milli markaða verði efnt og gripið verði til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun með leiðréttingu kerfisbundins vanmats á störfum þar sem konur eru í meirihluta. 

BSRB hafnar algjörlega öllum hugmyndum um niðurskurð í opinberum rekstri enda mun niðurskurður á þessum tímapunkti óhjákvæmilega auka ójöfnuð og draga úr velferð

„Viðurkenna þarf mikilvægt framlag framlínufólks við að halda þjónustu og samfélagslegum innviðum gangandi á tímum heimsfaraldursins. Um tveir þriðju hlutar starfsfólks ríkis og sveitarfélaga hefur upplifað aukið álag eftir að heimsfaraldur kórónaveirunnar skall á landinu af fullum þunga. Bæði laun og starfsaðstæður þurfa að taka mið af mikilvægi þessara starfa," segir hún.

BSRB leggur einnig ríka áherslu á að að gripið verði til aðgerða til að stuðla að húsnæðisöryggi launafólks. 

„Aukið framboð á húsnæði er líka mikilvægur þáttur í því að koma böndum á verðbólgu en húsnæðisliðurinn hefur haft mest áhrif til hækkandi verðbólgu síðasta árið ár auk hækkandi olíu- og hrávöruverðs sem og flutningskostnaðar," segir Sonja að lokum.


Innherji mun á næstu dögum birta viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað verður almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Krónutöluhækkanir komi ekki til greina framvegis

„Það liggur fyrir að lífskjarasamningarnir voru háskólamenntuðum um margt óhagfelldir. Það stefnir í að kaupmáttaraukning þeirra verði í besta falli engin á mörgum mörkuðum. Það mun hafa áhrif á okkar áherslur. Krónutöluhækkanir koma ekki til greina framvegis," segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×