Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjunar þar sem vakin er athygli á því að skerða þurfi afhendingu orku til þeirra viðskiptavina sem kosið hafa mesta sveigjanleikann í samningum við Landsvirkjun.
Staðan er sem fyrr segir sérstaklega slæm á Þjórsársvæðinu og Þórisvatn hefur ekki verið lægra síðan veturinn 2013-2014 þegar afhending raforku til stórnotenda með sveigjanlega raforkusamninga var síðast takmörkuð. Lítil úrkoma á svæðinu síðustu tvö ár er sökudólgurinn að því er fram kemur á vef Landsvirkjunar.

Þar kemur fram að ekki sé til raforka fyrir fiskimjölsverksmiðjur fram á vor, en fjallað var um í desember að þær neyddust til þess að keyra á olíu vegna skorts á orku.
„Þá hefur Landsvirkjun einnig tilkynnt öðrum viðskiptavinum sínum með sveigjanlega raforkusamninga, þ.e. stórnotendum og fjarvarmaveitum, að miðað við óbreytta stöðu muni líklega koma til takmarkana á afhendingu orku til þeirra á næstu þremur til fjórum vikum. Gert er ráð fyrir að takmörkunin geti orðið samtals allt að 250 GWst til viðbótar þeim 200 GWst sem fiskimjölsverksmiðjur eru skertar um. Samtals nemur þessi mögulega takmörkun á afhendingu orku um 3% af árlegri orkuvinnslu Landsvirkjunar.“