Skoðun

For­síðu­fyrir­sögnin: „Þyngdist um 15 kíló og hefur aldrei litið betur út”

Diljá Ámundadóttir Zoëga skrifar

Í upphafi hvers árs fara þættir um mataræði og heilsu (þá aðallega heilsu tengda við vigt) að verða fyrirferðamiklir í sjónvarpinu og aðrir miðlar birta viðtöl við fólk (aðallega konur) sem hafa misst einhvern fjölda kílóa og eru í hinu svokallaða formi.

Að gefnu tilefni langar mig að segja ykkur eina sanna sögu um samskipti mín við einn ákveðinn íslenskan fjölmiðil fyrir nokkrum árum. En þá hafði samband við mig kona úr ritstjórn tímarits sem reglulega birtir forsíðuviðtal við konur með fyrirsögn á borð við "Missti 25kg og hefur aldrei liðið betur" eða "Er 15kg léttari og full af sjálfstrausti".

Blaðakonan spurði hvort ég væri til í að koma í forsíðuviðtal og var þá helst með heimsreisu, sem ég fór í 2012, í huga. Mér þótti svo sem vænt um það en sagði við hana að ég hafi eiginlega farið í nógu mörg fjölmiðlaviðtöl um það ævintýri að jafnvel væri komið nóg af því. En ég stakk upp á að ég kæmi í forsíðuviðtal og fyrirsögnin væri að ég hefði þyngst um 15 kg á 10 árum og hefði aldrei liðið tignarlegri og betur í eigin líkama.

Hún sagðist ætla að hugsa málið og taka þetta upp á ritstjórnarfundi síðar um daginn og láta mig svo vita. Daginn eftir heyrði hún í mér og sagði ritstjórnina hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi hugmynd mín stangaðist alveg á við ritstjórnarstefnu tímaritsins og það yrði ekkert úr viðtalinu.

Kom mér svo sem lítið sem ekkert á óvart. En það var áhugavert að fá þetta staðfest svart á hvítu. Það er að segja að fitufordómar séu hluti af stefnu heils fjölmiðils. Og þetta tiltekna tímarit er bara eitt af fjölmörgum fjölmiðlum um heim allan sem gera út á það sama.

Ég veit ekki hvað ég er þung og ég hef ekki vitað það í mörg ár. Þessi tala hefur miklu oftar meitt mig og dregið mig niður en gert mér gagn. Svo ég hef valið að vita hana ekki né mæla eigin líðan og útgeislun út frá henni. Ég vildi óska að heimurinn myndi hætta að gera mér og okkur öllum svona erfitt fyrir að líða vel í eigin skinni.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Viðreisnar og áhugamanneskja um að sporna gegn fitufordómum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×