Taka skal fram að í þessari frétt kemur ýmislegt fram um næstu þáttaröð svo þeir sem vilja ekki vita meira ættu að hætta að lesa núna.
Vísir greindi frá því í síðasta mánuði að piparsveinninn, hinn 28 ára gamli Clayton Echard, væri staddur hér á landi ásamt þremur keppendum við tökur á svonefndum gististefnumótaþætti (e. overnight dates). Í þeim þætti hefur piparsveinninn val um að bjóða konunum að eyða nóttinni með sér eftir stefnumótið. Eftir gistinæturnar velur hann svo þær tvær sem komast í lokaþáttinn.
Sjá einnig: Næsti Bachelor mættur til Íslands á lokastefnumótin sín
ABC birti í dag stiklu úr væntanlegri þáttaröð, þar sem sjá má að afhending rósanna tveggja eftir gistinæturnar, fer fram í Hörpu. Rósaafhendingin er að sjálfsögðu hádramatísk eins og við var að búast, enda sjálfur lokaþátturinn í húfi fyrir dömurnar.
Í rósaafhendingunni í Hörpu má sjá Echard tjá tveimur stúlkum að hann hafi verið „náinn“ þeim báðum. Mikið uppnám verður á meðal þeirra beggja og er mikið grátið.
„Er hann ástfanginn af okkur öllum þremur?,“ spyr ein stúlkan með grátstafinn í kverkunum, á meðan önnur liggur grátandi í tröppunum í bláupplýstri Hörpu.
Í stiklunni má einnig sjá Echard á stefnumóti með keppanda í Perlunni þar sem hann segist vera orðinn ástfanginn. Þá má sjá hann á stefnumóti með keppandi undir fossi sem lítur út fyrir að vera í Sky Lagoon.
Íslenskir Bachelor-aðdáendur náðu myndum af Echard og keppendum víðs vegar um Reykjavík á meðan á dvölinni stóð. Áætlað er að þáttaröðin verði frumsýnd í Bandaríkjunum í byrjun janúar.