Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég er mikill Elf maður, algjör jólaálfur. Er sykur í sírópi? Ó já! Grinch er samt nettur en ég tengi lítið við hann.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Úff það er svakaleg spurning. Ég myndi segja að ég sé mjög gæfuríkur að eiga margar góðar minningar af jólunum. Þær eiga það allar sameiginlegt að ég hef verið staddur akkúrat í núinu og nota öll skynfæri til þess að njóta stundarinnar.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Ég er lítið fyrir að fá jólagjafir, en í fyrra gáfu systkinin mín mér mjög fallega gjöf sem gladdi mig mikið. Þau gáfu mér það að styrkja gott málefni.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Haha ég hef ekki fengið neina jólagjöf sem ég myndi telja verstu.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Ég er mikið fyrir hefðirnar og ég á því margar góðar jólahefðir. Ég hef til dæmis alltaf horft á Elf fyrir öll jól síðan hún kom út. Ég labba niður Laugarveginn á Þorláksmessu. Ég nýt stunda með þeim sem ég elska.“
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
„Þau eru nokkur. Stevie Wonder kemur mér alltaf í jólagírinn með lögunum Someday at Christmas og What Christmas Means To Me. Svo er lagið Mistletoe með Justin Bieber líka á þessum lista.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Ég borða hamborgarhrygg. Þó svo að ég hafi ekki getað borðað hann mörg ár í röð þar sem ég borðaði yfir mig af honum þegar ég var yngri. En eftir mikla æfingu og þrautseigju get ég nú borðað hann aftur með mikilli lyst.“

Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Gjöf sem gefur.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Ég tel mig geta hringt inn jólin innra með mér meira að segja í júlí. Svo fyrir mér það er bara að njóta með þeim sem ég elska.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Ó já! Þar sem ég bý í London þá ætla ég að njóta samverunnar, jólaskrautsins og stemmingarinnar hér. Svo er ferð til Íslands fram undan þar sem ég ætla að njóta með þeim sem ég elska. Jólin verða dásamleg í ár.“
„Jólin eru falleg hefð og er mikilvægt að minna sig á hvað hún stendur fyrir. Auðvitað er það mismunandi á milli einstaklinga en fyrir mér er það ást og kærleikur. Það er mikilvægt að einbeita sér að því í stað þess að einbeita sér að stressinu sem fylgir öllu því sem þarf að gera fyrir jólin.“
„Það er svo áhugaverð blekking að mínu mati að allt þurfi að vera fullkomið og allt þurfi að vera tipp-topp. Bara njóta, gera sitt besta, hafa gaman og elska!“