Handbolti

Kielce enn á toppnum þrátt fyrir tap

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce í kvöld.
Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce í kvöld. Getty

Íslendingaliðið frá Póllandi, Vive Kielce, þurfti að sætta sig við fimm marka tap er liðið heimsótti Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 32-27, en Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Kielce.

Heimamenn frá París byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleik þegar heimamenn komust í 13-7, en þá skoruðu gestirnir fimm í röð og minnkuðu muninn í eitt. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 16-14, PSG í vil.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik, en heimamenn voru þó alltaf skrefi á undan. Parísarliðið bætti jafnt og þétt ofan á forystu sína og vann að lokum góðan fimm marka sigur, 32-27.

Eins og áður segir skoruðu Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson sitt markið hvor fyrir Kielce, en liðið er enn á toppi B-riðils með 14 stig eftir níu leiki, þrem stigum fyrir ofan PSG sem situr í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×