Frá þessu greinir RÚV og vísar í úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, þar sem fallist var á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að tveir dómkvaddir matsmenn verði fengnir til að svara spurningum í tengslum við andlát eins sjúklings.
Að því er fram kemur í úrskurðinum hafa tveir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja réttarstöðu sakbornings; læknir og annar heilbrigðisstarfsmaður.
Landsréttur staðfesti úrskurðinn í vikunni en honum segir meðal annars:
„Lögreglustjóri segir að ætla megi að ef ætluð brot sönnuðust, myndu þau geta varðað fangelsisrefsingu. Af þessum sökum skipti miklu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að dómkvaddir verði matsmenn til að framkvæma sérfræðilega skoðun/rannsókn líkt og greini í kröfugerð svo unnt sé aðrannsaka málið nánar og upplýsa það. Þá telji lögreglustjóri jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist.“
Þá kemur einnig fram að matsmennirnir eigi að leggja mat á dánarorsök umrædds sjúklings, hvort forsendur voru fyrir hendi til að hefja lífslokameðferð, hvort verklagi við hana var fylgt, hvort lyfjagjöf hafi verið eðlileg og hvort rétt hafi verið staðið að sjúkdómsgreiningu sjúklingsins.
Báðir sakborningarnir eru sagðir hafa lagst gegn matsbeiðninni, meðal annars með tilliti til þess tjóns sem málið gæti valdið þeim.
Í frétt RÚV segir að lögregla hafi undir höndum tvö álit óháðra sérfræðinga en annar þeirra hafi komist að þeirri niðurstöðu að læknirinn hafi sýnt alvarlega bresti í faglegri þekkingu sem hefði ógnað öryggi sjúklinga en hinn að vanræksla hefði átt sér stað í veitingu heilbrigðisþjónustu.