Þing hefur nú ekki komið saman í um 140 daga og er því um að ræða lengsta þinghlé í rúma þrjá áratugi.
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, mun prédika í guðsþjónustunni í Dómkirkjunni og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjóna fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Þá mun Kári Þormar, organisti Dómkirkjunnar, leika á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngja við athöfnina.
Í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis segir að að guðsþjónustu lokinni gangi forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
„Söngkonur úr Domus vox syngja við þingsetninguna, undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 152. löggjafarþing og starfsaldursforseti Alþingis, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, býður alþingismenn og ráðherra velkomna og minnist látins þingmanns og látins fyrrverandi ráðherra. Þá verður kosin kjörbréfanefnd. Þingsetningarfundi verður síðan frestað,“ segir í tilkynningunni.
Undirbúningskjörbréfanefnd birtir greinargerðir
Líkt og fram kemur verður kosin kjörbréfanefnd í dag. Þegar það liggur fyrir mun undirbúningskjörbréfanefndin, sem hefur verið að störfum síðustu vikurnar, birta greinargerðir sínar varðandi talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í þingkosningunum sem fram fóru 25. september síðastliðinn.
Í frétt í gær kom fram að samkvæmt heimildum fréttastofu verði tvær leiðir lagðar fyrir þingið. Fyrst þá að samþykkja kjörbréf allra þingmanna nema þeirra sextán, sem eru annað hvort þingmenn í Norðvesturkjördæmi eða jöfnunarþingmenn, því lokatölur í kjördæminu sem óvissan snýst um getur breytt öllum jöfnunarmannakaplinum á þingi. Miklar líkur séu hins vegar á að sú tillaga verði felld en þá verði lögð fyrir þingið tillaga um að samþykkja öll 63 kjörbréfin.